138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

skattamál, viðvera ráðherra og framhald kvöldfundar.

[20:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Ég man þá tíð þegar verið var að breyta þingsköpum í síðasta sinn og hv. þingmenn Vinstri grænna sögðu okkur frá því að með þeim breytingum væri verið að koma í veg fyrir þann mikilvæga rétt þingmanna að hafa áhrif á störf þingsins með því að halda langar ræður. Ég held að þetta sé rétt hjá hv. þingmönnum Vinstri grænna. Það var þannig að mjög var dregið úr möguleikum manna til að halda langa ræðu, með öðrum orðum möguleikanum til að stunda málþóf. Þess vegna erum við auðvitað ekki að upplifa neitt málþóf þegar fáeinir þingmenn hafa talað í 40 mínútur eða svo og skipst örlítið á skoðunum.

En aðalatriðið málsins er þó þetta. Við höfum, þingmenn stjórnarliðsins, hvað eftir annað rétt út sáttarhönd og boðist til að stuðla að því að hægt væri að koma á dagskrá málum ríkisstjórnarinnar sem virkilega liggur á, en nú liggur hins vegar fyrir hver er hin raunverulega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar. Númer eitt, tvö og þrjú, það er Icesave. Annað skiptir greinilega (Forseti hringir.) minna máli.