138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:08]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get ekki eins og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra fullyrt að þessir ágætu fræðimenn hafi ekki haft réttar upplýsingar, mér er algjörlega ómögulegt að fullyrða slíkt.

Í því sem ég hef undir höndum segir, með leyfi forseta:

„Við höfum farið gaumgæfilega yfir skýrslu AGS, dags. 20. október 2009, og önnur gögn varðandi mat á sjálfbærni vergra erlendra skulda Íslands sem nú eru taldar vera yfir 300% af vergri landsframleiðslu og gætu hækkað mjög mikið ef ekki reynist kleift að viðhalda núverandi gengi krónunnar.“

Síðan er sagt, með leyfi frú forseta:

„Í skýrslu AGS er því haldið fram að minnka megi talsverðan hluta heildarskuldanna með því að endurskipuleggja og draga úr skuldsetningu fjölþjóða íslenskra fyrirtækja; í raun að minnka eignir þeirra og þá væntanlega umsvif þeirra.“

Frú forseti. Ég get ekki og treysti mér ekki í umræðu við hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra um verga landsframleiðslu og skuldir þar að lútandi en þó tel ég að við getum ekki talið okkur til tekna eignir lífeyrissjóðanna til að lækka skuldir Íslands. Og margt hefur það komið frá Seðlabanka Íslands sem hefur ekki staðist rúma viku eða viku, þó að það hafi komið fram, og ekki alltaf traust það sem þaðan kemur til að skoða og fara yfir.