138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki kynnt mér þetta til hlítar, ég las það sem fram kom frá þessum ágæta manni í einhverju dagblaðanna þar sem í ljós kom að hann telur að það nemi um 185 milljörðum í mismun á þeim vöxtum sem við eigum að greiða miðað við þá samninga sem hér liggja fyrir og það sem gerist innan lands hjá þeim ágætu þjóðum sem hv. þm. Birkir Jón Jónsson benti á.

Að sjálfsögðu, frú forseti, á að skoða allt sem kemur okkur sem Íslendingum til góða í þeirri umræðu sem hér á sér stað þegar horft er til þess að við erum að leggja ævintýralegar byrðar á fólk langt inn í framtíðina sem komandi kynslóðir munu þurfa að greiða verði þetta frumvarp að lögum. Og það er skilyrt af minni hálfu að á milli 2. og 3. umr. taki fjárlaganefnd þær ábendingar sem komið hafa fram, hvort heldur eru frá Daniel Gros eða Sigurði Líndal, varðandi stjórnarskrána og allar þær athugasemdir sem komið hafa frá því málið var tekið út úr nefnd, allt þetta komi inn til fjárlaganefndar og hún taki það til umræðu á milli 2. og 3. umr.

Af því hæstv. iðnaðarráðherra kallaði fram í áðan, frú forseti — þegar hæstv. iðnaðarráðherra er ekki sammála því sem ræðumenn í stóli segja, þá er það vaninn að kalla að það sé klisja.

Frú forseti. Ég segi bara: Lítið þér í eigin barm, hæstv. ráðherra. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)