138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:31]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að sjá að við höfum nú skörulegan forseta í forsetastól sem ég efast ekki um að muni svara þeim spurningum sem ég mun beina til hæstv. forseta. Nú er það svo að það er fundur í þremur nefndum í fyrramálið, þeir fundir eru um hálfníuleytið, nú er klukkan hálftíu og sum fundarboðin hafa bara verið að berast nú rétt í þessu. Þingmenn þurfa að sjálfsögðu að undirbúa sig fyrir þá fundi sem eru fram undan en þeim ber líka skylda til að vera hér á meðan þingfundur stendur. Ég sé að þingmenn minni hlutans í þinginu hafa ríkan skilning á því en það eru mjög fáir stjórnarliðar sem eru viðstaddir þessa umræðu. Nú veit ég að frú forseta er mjög í mun að gera þingið að fjölskylduvænum stað og að þar séu skipulögð vinnubrögð og því spyr ég hæstv. forseta hvenær hún hyggist ljúka fundi í kvöld, vonandi stendur ekki til að funda inn í nóttina, er það?