138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:38]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil ítreka erindi mitt við forseta frá því áðan, þegar ég tjáði mig í tvígang um fundarstjórn forseta og óskaði svara við því hve þessi fundur mundi standa lengi. Hér eru margir þingmenn sem eiga og ber skylda til að mæta á fund í þingnefnd í fyrramálið kl. 8.30 og mér skilst að fjórar nefndir fundi þá. Þar verða tekin fyrir ýmis mjög mikilvæg mál. Í iðnaðarnefnd er m.a. á dagskrá að ræða um heimild til samninga um álver í Helguvík og jafnframt um stöðu sprotafyrirtækja. Hvort tveggja viðamikil mál og þessi dagskrá var send út seinni partinn í dag. Þar sem þingfundur hefur staðið frá þeim tíma, hafa þeir þingmenn sem ætla sér t.d. að sækja þennan fund haft lítinn tíma til undirbúnings. Fyrir svona fundi, ef maður vill undirbúa sig vel, þarf maður stundum að eiga fundi við aðila og því er gríðarlega nauðsynlegt, frú forseti, bara upp á skipulag morgundagsins, að hv. þingmenn viti hversu lengi megi búast við að þeir standi í þingsalnum í nótt.