138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:42]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég bíð enn þá mjög spennt eftir því að frú forseti segi þingheimi frá því hve lengi hún hyggist halda þennan fund. Við höfum komið upp ítrekað og það mundi óneitanlega greiða fyrir þingstörfum ef hæstv. forseti gæti svarað einföldum spurningum sem til hennar er beint. Ég held að það skipti mjög miklu máli við það að skipuleggja morgundaginn. Fjórar þingnefndir funda kl. 8.30 eins og hér hefur komið fram. Ef þingmenn eiga að sitja hér fram undir morgun og horfa á sólarupprásina eins og hæstv. utanríkisráðherra boðaði áðan, er ekki líklegt að þeir verði til mikilla afreka í þingnefnd kl. hálfníu í fyrramálið. Ég er þess fullviss að frú forseti, sem er forseti allra þingmanna, vill ekki hafa það á samviskunni að nefndastarfið fari forgörðum í fyrramálið. Annað tveggja þarf að gera, að slíta þingfundi á skikkanlegum tíma eða (Forseti hringir.) fresta þingnefndafundum í fyrramálið. Ég óska eftir því að hæstv. forseti upplýsi okkur um hvað hún hyggist fyrir í þessum efnum.