138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:53]
Horfa

Jón Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þær spurningar sem lagðar hafa verið fram til virðulegs forseta um það hvenær þingfundi ljúki. Það er auðvitað orðinn algjör ósómi að vinnubrögðum hér í þinginu þegar kemur að vinnutíma. Ég vil benda virðulegum forseta á það að alla síðustu viku voru hér kvöldfundir, alla þá þingfundadaga sem þá voru fram á kvöld, og svo hefur einnig verið í þessari viku, þannig að þetta er orðin regla, ekki undantekning.

Ég vil einnig hvetja hæstv. viðskiptaráðherra til að taka þátt í umræðunni. Mér vitanlega hefur hann ekki tjáð sig í 2. umræðu málsins fram til þessa. Í málinu hafa komið fram margar nýjar upplýsingar og gögn sem væri áhugavert að fá sjónarmið hans á, ekki síst vegna sérfræðiþekkingar hans á þessum málum. Ég vil sérstaklega taka til eitt sem mig langar til að ræða af (Forseti hringir.) þessu tilefni og það er hvað það þýddi ef ákvæðum í lögum um innstæðutryggingarsjóðinn væri fylgt (Forseti hringir.) um að Íslendingar greiði þessar upphæðir í íslenskum krónum en ekki í erlendum gjaldmiðli.