138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:54]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil bara koma því á framfæri að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hefur ekki talað eina mínútu í þessum ræðustól um það nýja frumvarp sem nú liggur fyrir, ekki eina einustu mínútu, nema þá í stuttum andsvörum eða undir fundarstjórn forseta. Það finnst mér dálítið merkilegt, frú forseti, vegna þess að það sem við höfum einmitt mestar áhyggjur af og þeir sem hafa verið að kynna sér þessi mál, er akkúrat það hvort við getum efnahagslega staðið við skuldbindingarnar, vegna þess að nú er búið að aftengja hina efnahagslegu fyrirvara. Þess vegna er mjög mikilvægt fyrir okkur sem höfum miklar áhyggjur af þessu að heyra þennan reynda mann færa rök fyrir því að okkar bíði engin hætta af þessu, því mjög mörg misvísandi skilaboð hafa komið fram. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur hækkað skuldaþol þjóðarinnar úr 240 upp í 310% til að aðlaga það aðstæðum á landinu. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra tali í þessu máli, vegna þess að hann hefur aldrei gert það fyrr. Fyrst hann er á staðnum hvet ég hann eindregið til þess, af því að mig langar til að hlusta á það sem hann hefur fram að færa. (Forseti hringir.)