138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[21:57]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti, allra þingmanna. 29 þingmenn greiddu í dag atkvæði um að við yrðum hérna á á fundi í kvöld, ég sé ekki marga þeirra hér en mér þætti ákaflega vænt um ef einhverjir þessara þingmanna mundu nú koma hingað í salinn og hlusta á ræðuna mína. En vegna þess að ég hef ekki séð hv. þingmenn Ögmund Jónasson og Lilju Mósesdóttur oft hér í salnum við þessa umræðu, þá langaði mig út af því að þau skrifuðu ákaflega gott álit frá 2. minni hluta efnahags- og skattanefndar og það var, að mér skilst, ekki tekið fyrir í fjárlaganefnd, að lesa, með leyfi forseta, upp álit þeirra því að mér finnst það eiga erindi til allra þingmanna:

„Á fundum efnahags- og skattanefndar voru rædd ýmis álitamál, svo sem geta þjóðarbúsins og hins opinbera til að greiða af skuldum næstu 15 árin. Fram kemur í minnisblaði Seðlabanka Íslands sem rætt var á fundi nefndarinnar að mikil skuldabyrði hins opinbera hér á landi á næstu árum sé áhyggjuefni. Gert er ráð fyrir að hlutfall skulda hins opinbera af vergri landsframleiðslu (VLF) verði 125% á árinu 2009. Þetta hlutfall má ekki vera hærra en 60% vilji Íslendingar uppfylla Maastricht-skilyrðin og gerast aðilar að evrópska myntsamstarfinu. Aðeins eitt þróað hagkerfi er með hærra skuldahlutfall hins opinbera en það er Japan. Lítill hagvöxtur í Japan undanfarna tvo áratugi hefur að hluta verið rakinn til mikillar skuldsetningar hins opinbera. Það eru því líkur á því að mikil skuldsetning hins opinbera hér á landi muni draga úr hagvexti á næstu árum. Vaxi hagkerfið ekki hraðar en sem nemur vexti skuldanna er skuldsetning þjóðarbúsins ekki lengur sjálfbær. Ósjálfbærni skulda mun óhjákvæmilega leiða til greiðslufalls, en þá þurfa íslensk stjórnvöld að biðja kröfuhafa um hagstæðari endurfjármögnun á skuldum hins opinbera, þ.e. með lægri vöxtum og lengingu lánstímans. Í þessu felst mikil áhætta því að erfitt er geta sér til um viðbrögð kröfuhafa við slíkri beiðni.

Mikil óvissa ríkir varðandi endurheimtur á eignasafni Landsbanka Íslands og því er vandkvæðum bundið að áætla hver raunveruleg skuldbinding vegna Icesave verður. Ef miðað er við 90% endurheimtur, þá verður núvirt hrein skuldbinding vegna Icesave um 14% af VLF á þessu ári en hlutfallið fer í 30% ef gert er ráð fyrir 50% endurheimtum. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) um skuldaþol íslenska þjóðarbúsins er hlutfall erlendra skulda þjóðarbúsins af VLF áætlað 310% fyrir árið 2009. Við útreikning á hlutfallinu gjaldfærir sjóðurinn heildarupphæð Icesave-lánasamninganna og nemur upphæðin um 49% af VLF eða um 721 milljarði kr. sem kemur til viðbótar annarri skuldsetningu opinberra aðila og einkaaðila. Þess má geta að AGS notar alþjóðlega staðla við mat á skuldbindingum og miðar alltaf við heildarskuldsetningu þjóðarbús við erlenda aðila sem hlutfall af VLF. Í nóvember 2008 mat AGS að 240% skuldahlutfall væri „augljóslega óviðráðanlegt“ (clearly unsustainable). Ári síðar telur sjóðurinn að 310% hlutfall sé viðráðanlegt. Þessi mótsögn í mati sjóðsins er athyglisverð í ljósi þess að íslenska ríkið gæti ekki ábyrgst lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu ef skuldaþolsmörkin frá því í nóvember 2008 héldu og væru enn 240%. Það er ekki hægt að útskýra þessa stefnubreytingu AGS nema með þeim hætti að Bretar og Hollendingar hafi beitt pólitískum þrýstingi í stjórn AGS til að tryggja að íslenska ríkið taki á sig Icesave-skuldbindingarnar.

Skuldahlutfall sem er langt yfir eðlilegum þolmörkum þýðir rýrari lífskjör því að draga þarf úr neyslu innan lands, ella mun ekki takast að tryggja nægilegan afgang á vöruskiptajöfnuði. Rýrnandi lífskjör almennings munu auka hættuna á landflótta. AGS gerir ráð fyrir að afgangurinn á vöruskiptajöfnuði verði á bilinu 123–172 milljarðar kr. á ári fram til ársins 2014 en þess má geta að vöruskiptajöfnuðurinn fyrstu átta mánuði þessa árs nam ekki nema 44,7 milljörðum kr. Þjóðarbúið mun ekki standa undir skuldsetningu sem nemur í ár um 310% af VLF nema þessi afgangur gangi eftir og hægt verði að endurfjármagna erlendar skuldir.

Í júní sl. var samið um 5,55% vexti í Icesave-lánasamningunum sem eru mun hærri vextir en breska ríkið þarf að greiða af útgefnum ríkisskuldabréfum. Auk þess var upphæð forgangskrafna í Landsbanka Íslands fryst í krónum talið hinn 22. apríl 2009, þannig að vextir og gengishagnaður verða ekki lengur forgangskröfur. Þetta þýðir að krafa innlánstryggingarsjóðsins á hendur Landsbanka Íslands ber hvorki vexti, verðbætur né gengishagnað vegna hækkunar erlendra mynta í 5–7 ár. Hins vegar greiðir innlánstryggingarsjóður 5,55% vexti af lánum sem eru í evrum og pundum eða gengistryggð. Vaxtastigið er með öðrum orðum í litlu samræmi við annars vegar skuldsetningu íslenska þjóðarbúsins í kjölfar bankahruns og hins vegar kröfu innlánstryggingarsjóðsins á hendur Landsbanka Íslands.

Við sjáum ástæðu til að vekja athygli á mikilli skuldsetningu þjóðarbúsins og hins opinbera í ljósi þess að draga þarf verulega úr einkaneyslu og samneyslu á næstu árum til að þjóðin geti staðið undir greiðslubyrðinni.“

Undir þetta rita hv. þingmenn Lilja Mósesdóttir og Ögmundur Jónasson.

Það sem er merkilegt við það sem hv. þingmenn rita í sínu nefndaráliti er að það er algerlega í takt við það sem erlendu sérfræðingarnir sögðu sem hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra gaf nú ekki mikið fyrir, enda hljóta útreikningar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að vera eitthvað vitlausir fyrst Seðlabankinn kemur með svona fínar tölur enn einu sinni sem svo þarf að reka ofan í þá aftur.

Frú forseti. Nú fjallar þingheimur enn einn daginn, enn eitt kvöldið um Icesave. Heyra má raddir úti í samfélaginu sem og innan raða stjórnmálamanna um að menn séu orðnir leiðir á þessu máli, að við eigum bara að samþykkja þetta óbreytt vegna þess að allir séu orðnir svo hundleiðir á stærsta hagsmunamáli þjóðarinnar. Ég get alveg viðurkennt að ég er orðin þreytt á þeirri skrumskælingu á því sem gjarnan er kallað við hátíðleg tækifæri lýðræði og þingræði varðandi þetta Icesave mál. Mér þætti nær að kalla það sem hér fer fram leikhús fáránleikans. Ég veit, kæri forseti, að þetta eru stór orð en er það ekki vanvirðing við þingið að koma hér inn með frumvarp um Icesave sem sjálfur hæstv. fjármálaráðherra færir þinginu í þinglega meðferð með þeim fyrirmælum að það sé alls ekkert svigrúm til að breyta því? Er það ekki enn eitt dæmið um það hve þingið er veikt gagnvart ráðherraræðinu? Var það ekki eitt af þeim loforðum sem þjóðinni var heitið í kosningabaráttunni að þingið endurheimti völd sín til löggjafar, var það ekki eitt af loforðunum? Icesave er skýrt dæmi um að það voru bara innantóm loforð.

Frú forseti. Það er ekki merki um styrk þingsins að leyfa að þetta frumvarp fari óbreytt í gegnum þingið. Nú hefur komið í ljós að þær breytingar á fyrirvörunum sem voru samþykktir sem lög frá þinginu í september hafa eyðilagt það öryggisnet sem þingmenn ófu svo haglega saman þvert á flokka. Hæstvirtir ráðherrar kepptust við að hæla fyrirvörunum og allir voru á eitt sáttir um þá völundarsmíð þegar óskað var eftir stuðning minni hlutans við fyrirvarana sem allir þingmenn sem einn studdu í sumar. Þá er ég ekki að tala um lagagjöfina um að samþykkja Icesave-frumvarpið heldur lagagjöfina um að samþykkja fyrirvarana, það samþykktu allir þingmenn.

Ég er meðvituð um að það er mikilvægt að láta að okkur kveða erlendis og sýna að við höllumst ekki í átt að einangrun en mikið væri gott ef forseti Íslands, lýðveldisins, mundi sýna okkur þann sóma að gefa út staðfestingu, þrátt fyrir að vera í Abú Dabí, um það hvort hann hyggist standa við fyrri yfirlýsingu varðandi Icesave, en ég ætla að lesa upp þessa ágætu yfirlýsingu forseta Íslands frá því í september, með leyfi forseta:

„Yfirlýsing forseta Íslands.

Í lögum um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innstæðueigenda hjá Landsbanka Íslands hf., sem Alþingi samþykkti þann 28. ágúst 2009, eru margvíslegir fyrirvarar sem settir voru í hið upphaflega frumvarp.

Fyrirvararnir eru niðurstaða samvinnu fulltrúa fjögurra þingflokka í fjárlaganefnd Alþingis og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi.

Samstaða hefur náðst á Alþingi og utan þess um að afgreiða lögin í krafti þessara fyrirvara og Alþingi samþykkti þá með afgerandi hætti. Eðlilega er þó enn andstaða við málið meðal almennings eins og undirskriftir um 10.000 Íslendinga, sem forseta hafa borist, eru meðal annars til vitnis um.

Fyrirvararnir sem Alþingi smíðaði og samþykkti taka mið af sanngjörnum rétti þjóðarinnar, hagsmunum Íslendinga á komandi árum og alþjóðlegri samábyrgð.

Forseti hefur því ákveðið að staðfesta lögin með sérstakri áritaðri tilvísun til fyrirvara Alþingis. …

Bessastöðum, 2. september 2009

Ólafur Ragnar Grímsson.“

Orð forseta Íslands eru rökföst og sanngjörn í þessari yfirlýsingu og ég trúi ekki öðru en að hann breyti ekki um leið í miðri á, slíkur umsnúningur gæti reynst þjóðinni ofviða á þeim örlagatímum sem við búum við. Þjóðin kallar á heiðarleika og það er sorglegt hve mikill óheiðarleiki hefur einkennt Icesave-málið.

Það er ekki merki um gagnsæi og heilindi að segja eina sögu í lokuðum herbergjum í skjóli trúnaðar og segja svo þjóðinni eitthvað allt annað. Það er verið að leika sér að eldfimum efnum eins og sannleikanum og hve langt má ganga og segja hálfsannindi. Darraðadansinn í kringum AGS og Norðurlandalánin þegar kemur að Icesave er skýrt merki um slíkan hálfsannleika þar sem maður veit hreinlega ekki hverjum maður á að trúa því enginn virðist lifa í sama veruleika. Hvernig er hægt að ætlast til að almenningur haldi fókus þegar engum ber saman um hvað er satt og hvað er logið? En hvað vitum við fyrir víst? Við vitum að bresk og hollensk yfirvöld beittu miklum þrýstingi innan AGS og hindruðu annan hluta umsagnar AGS og annars hluta lánanna og því dróst það ferli svo á langinn. Allt var botnfrosið og engar skýrar línur voru dregnar með stefnu íslenskra yfirvalda um hvort þau mundu sætta sig við slíkan yfirgang. Við vitum að þegar hæstv. fjármálaráðherra rauð sitt nafn á þennan samning, sem neyða á þingið til að samþykkja fyrirvaralaust, að stíflan brast og annar hluti AGS-lánsins rann inn á bankareikning í Bandaríkjunum.

Í lokuðum herbergjum var sagt að Norðurlöndin neituðu að lána okkur nema að við samþykktum Icesave og að Icesave væri forsenda þess að fá annan hluta AGS-lánsins. Í opinberum yfirlýsingum var eitthvað allt annað sagt. Nú hefur komið í ljós að Norðurlöndin kannast ekki við að hafa sagt það heldur vildu þau ekki láta okkur í té fé fyrr en búið væri að góðkenna að við værum á réttri braut í okkar ömurlega AGS-prógrammi. Maður verður hálfringlaður að hugsa um þetta og þá hefur þeim tekist það sem þau vildu, að taka fókusinn af því sem skiptir máli: Ber þjóðinni að standa straum af einkaskuld? Nei, nei og nei og ne-hei. En það er álitamál hvort við sem búum í lýðræðisríkinu Íslandi berum ekki einhverja ábyrgð á því að kjósa yfir okkur steinsofandi fulltrúa aftur og aftur, og það er kannski ekki skrýtið að þeir hafi verið steinsofandi, það hefur verið lenska hér að halda kvöldfundi, nótt eftir nótt og hlusta á hæstv. ráðherra, núverandi ráðherra, halda fimm til sex tíma ræður og hreykja sér af því. Þjóðin valdi þetta stjórnarfar, þjóðin valdi að hafa sem minnst um sín mál að segja og enn og aftur er fólk hætt að skipta sér af og við erum að upplifa nákvæmlega það sama og í miðju hruni, vanmátt þingsins til að taka á málunum en ekki síst vanmátt hæstvirtrar ríkisstjórnar að taka sameiginlegar ákvarðanir um málefni sem falla undir verksvið hennar. Það vantar frumkvæði að því að taka á Icesave af festu og sjálfsvirðingu og ef til vill er þetta mál þess eðlis að það hefur hreinlega vaxið okkur yfir höfuð.

Það voru mistök að senda menn út til að semja við Breta og Hollendinga á embættismannastigi. Þetta er hápólitískt mál sem ætti að vera meðhöndlað á æðstu stigum í öllum ríkjunum. Það að bæði forsætisráðherra Breta og Hollendinga hunsi ósk hæstv. forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, um að funda með þeim um þetta mál er auðvitað argasta móðgun og við ættum að vekja athygli á því í fjölmiðlum þar ytra. Það ætti að ítreka beiðni um fund og samtöl og gera þetta að stórmáli.

En við erum bara eins og hver önnur nýlenduþjóð sem ráðamenn þessara landa bera litla virðingu fyrir. Kannski má um kenna að ekki hefur tekist að fá meiri hlutann til að koma á þingmannanefnd sem færi til þessara landa og hitti breska og hollenska þingmenn formlega til að ræða saman um stöðuna og útskýra hvað þessar kröfur sem embættismenn þeirra settu saman þýða fyrir landið okkar og sameiginlega framtíð í alþjóðasamfélaginu sem nota bene er ekki bara í Evrópu.

Ég var í síðustu viku á þingmannaráðstefnu NATO og átti þar mjög gott samtal við breskan stjórnarþingmann sem vil svo til að er formaður efnahagsnefndar NATO-þingsins. Hann sagðist vera tilbúinn að aðstoða okkur við að skipuleggja formlega heimsókn íslenskra þingmanna til kollega sinna á breska þinginu. Ég hef ítrekað beðið um, formlega og óformlega, að þessi nefnd verði sett saman nú þegar. Ég sendi forsætisnefnd og þingflokksformönnum eftirfarandi bréf í morgun en hef ekki fengið nein svör, með leyfi forseta:

,,Hér með fer ég þess á leit að skipuð verði þingnefnd til að kynna stöðu landsins meðal breskra og hollenskra þingmanna. Þetta þarf að gerast án tafar. Á NATO-þinginu gaf sig á tal við mig breskur þingmaður sem er formaður efnahagsnefndar NATO-þingsins, en hann er þingmaður Verkamannaflokksins fyrir York. Hugh Bayley er tilbúinn er að setja af stað ferli þar sem íslenska þingnefndin mundi hitta formlega breska þingmenn til að útskýra stöðu landsins sem og Icesave. Síðan í sumar hafa þingmenn minni hlutans í utanríkismálanefnd kallað eftir því að slík nefnd yrði sett saman, ég tel að það mundi sýna ótvíræðan styrk ef 5 þingmenn yrðu skipaðir í þessa nefnd þvert á flokka. Með nefndinni þyrfti að fara fjölmiðlatengill til að nýta ferðina til að koma á framfæri stöðu Íslands í þarlendum fjölmiðlum. Þá vil ég árétta að það er ekki hægt að bera saman formlega heimsókn af þessu tagi og að ræða við þingmenn óformlega á alþjóðaþingum.“ — En sumir þingmenn stjórnarliða virðast halda að þetta sé sambærilegt.

„Ég óska því eftir að formenn þingflokka verði kallaðir saman í dag til að fjalla um þetta mál.“

Það er mikilvægt að við hættum að senda þau skilaboð út í alþjóðasamfélagið að við viljum ekki standa við skuldbindingar okkar varðandi Icesave. Minni hlutinn og efasemdarmenn innan stjórnarflokkanna hafa aldrei sagt að það sé ekki vilji til að standa við okkar skuldbindingar. Það sem þetta mál snýst fyrst og fremst um er aðferðafræðin við það hvernig við stöndum við skuldbindingar þessar. Okkur í Hreyfingunni finnst til að mynda ógjörningur að samþykkja það að fyrst sé gengið að sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar áður en reynt verði til þrautar að endurheimta peningana frá þeim sem stálu þeim frá þeim sem settu peningana sína í vörslu Icesave bankans. Þegar ég hef rætt við þingmenn frá öðrum löndum og reynt að útskýra fyrir þeim hvað þetta er stórt fyrir okkur Íslendinga, þetta Icesave-mál, og hvað þetta er ofboðslega mikil skuldbinding á hvern og einn landsmann þegar maður útskýrir stöðuna og segir að þetta sé frekar einfaldur reikningur, þá eru þetta eitthvað 300 þúsund reikningar sem þarf að greiða 20 þúsund evrur af rúmlega. Það þýðir að ég og börnin mín og amma, ég persónulega, amma persónulega, börnin mín persónulega þurfum að greiða einhverju fólki í Bretlandi og Hollandi, sem ég hef vissulega mikla samúð með, við þurfum persónulega að greiða því um 20 þúsund evrur hvert með skertum lífskjörum. Það er ekki rétt, þetta er rangt og ég get aldrei samþykkt þetta. En það eru líka röng skilaboð út í alþjóðasamfélagið að við ein lítum á okkur sem fórnarlömb fjárglæframanna sem áttu þennan banka, við þurfum að senda skýr skilaboð um fullan skilning og vilja til að aðstoða þá sem fóru illa út úr þessu á erlendri grund.

Þetta leiðir hugann að Gerhard nokkrum sem var í Silfri Egils síðasta sunnudag sem fer fyrir hópi fólks sem var með yfir 100 þúsund evrur í sínum reikningum í Hollandi og fær ekki neinar endurheimtur og hefur komið hingað ítrekað til þess að fá einhverjar upplýsingar um hvort það eigi einhvern rétt eða hvort gera eigi eitthvað fyrir það. Þessi tiltekni maður hafði einmitt lagt inn peninga á Icesave-bankareikning sem átti að fara í að byggja upp skóla í Kenía. Hann sagði að ráðamenn okkar hafi ekki sýnt þeim svo mikið sem þann sóma að svara þeim, hvað þá t.d. að hitta þennan ágæta mann og bjóða honum í te og ræða við hann um að við höfum fullan skilning á því hve illa Hollendingar eru að fara út úr þessu, þessi 300 manna hópur. Persónulega finnst mér rosalega mikilvægt að við sýnum þeim sem hafa lent illa út úr þessum íslensku fjárglæframönnum sem kannski hafa einhverja erlenda fjárglæframenn á bak við sig, ég veit það ekki, meiri skilning af því að ég held að það mundi styrkja stöðu okkar. Ég veit það að um leið og fólk fer að líta á Breta og Hollendinga sem óvini þá erum við gera mistök. Kannski ættum við að læra svolítið af Tíbetum en þeir líta aldrei á Kínverja sem óvini sína heldur aðeins kínversku ríkisstjórnina. Við þurfum að aðgreina þetta svolítið, það er ekki gott ef við förum að búa til óvini úr okkar ágætu vinaþjóðum, Bretum og Hollendingum, því að þeir eru kannski bara jafnóheppnir og við með ríkisstjórnir sínar.

Í lögum þeim sem enn eru í gildi og voru samþykkt í sumar um Icesave stendur eftirfarandi í 8. gr., með leyfi forseta:

„Endurheimtur á innstæðum. Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.“

Nú leikur mér mikil forvitni á að vita hvar þetta mál eiginlega stendur, höfum við fengið einhverja skýrslu um þetta í þinginu hvernig þetta gekk hjá ríkisstjórninni þegar hún var að grípa til nauðsynlegra ráðstafana, hvaða ráðstafana hefur hæstv. ríkisstjórn gripið til? (Gripið fram í: Nú vantar ráðherrana.) Já, hvar eru ráðherrarnir? Ég er með spurningar hér til ráðherra, hæstv. forseti, mér þætti vænt um að fá svör við þessu.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill gera grein fyrir því vegna fyrirspurnar hv. þingmanns að samkvæmt viðveruskrá eru 13 stjórnarliðar í húsinu og einhverjir ráðherrar. Forseti mun gera ráðstafanir til þess að þeir komi í þingsalinn. Forseti vill hvetja hv. þingmann til að halda áfram ræðu sinni, ég hygg að ráðherrar séu hér í hliðarherbergjum og á leið í þingsal.)

Frú forseti. Ég sé enga ráðherra hér í hliðarherbergjum. Getur hæstv. samgönguráðherra svarað þessu? Fyrst frú forseti telur að hæstv. samgönguráðherra geti svarað þessari spurningu þá ætla ég að endurtaka hana og bið hæstv. ráðherra að hlusta vel á:

„Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar. Ríkisstjórnin skal fyrir árslok 2009 semja áætlun um hvernig reynt verður að endurheimta það fé sem kann að finnast.“

Nú óska ég, frú forseti, eftir því að fá svar við því hvar þetta ferli stendur, hvort það sé komin einhver skýrsla eða einhver svör eða hvernig hefur gengið í þessu samstarfi eða hvort það hafi verið eitthvert samstarf yfir höfuð við þar til bæra aðila, yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og hvernig hefur gengið að rekja innstæðurnar af Icesave-reikningunum sem voru fluttir væntanlega á einhverjar aflandseyjar. Þá óska ég eftir að fá svör við því hvernig gangi hjá ríkisstjórninni að semja áætlun um hvernig reynt verði að endurheimta það fé sem kann að finnast en hún skal ganga frá því fyrir árslok 2009. Til að vitna áfram í 8. gr. um endurheimtur á innstæðum í lögunum sem samþykkt voru í sumar þá ætla ég að halda hér áfram, með leyfi forseta:

„Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.“

Ég vil því nota tækifærið og spyrja hæstvirta ríkisstjórn hvar þessi vinna stendur, hve mikla peninga hefur tekist að endurheimta frá þeim sem efndu til þessarar skuldar. Ég veit ekki með ykkur en ég get ekki sætt mig við að tekjuskattur 79.000 skattborgara þessa lands fari í það að greiða vexti af Icesave um ár og aldur.

Einn er sá félagsskapur sjálfboðaliða sem hvað ötullegast hafa unnið að því að aðstoða okkur þingmenn við að skilja hina flóknu samninga sem okkur var gert að skrifa undir nánast blindandi. Mig langar, með leyfi forseta, að lesa upp nokkra punkta um Icesave-samninganna sem Indefence-hópurinn sendi þingmönnum 15. júní 2009:

„1) Vaxtakjör og lánstími.

a. 5,55% vextir eru allt of háir – þetta er ríkisábyrgð. Til samanburðar eru stýrivextir seðlabanka Bretlands nú 0,5% og 12 mánaða Libor vextir 1,6%.

b. Vextir af lánasafni Landsbankans eru lægri en vextir lánsins og því hækka skuldir hraðar en eignirnar og nettóskuld eykst með tíma.

c. Fréttastofa RÚV reiknar það út að skuldbindingin verði um 420 milljarðar kr. gangi forsendur samningsins eftir, ekki 170 milljarðar kr. eins og lesa má úr fréttatilkynningu ríkisstjórnarinnar. Þetta er munur upp á 250 milljarða kr.

d. Það er því verið að setja þungar skuldbindingar inn í framtíðina og vona að allt reddist.

2) Lánið er í erlendri mynt, heildarstaðan.

a. Lánið vegna samningsins er í erlendri mynt og til að geta borgað af nýju erlendu láni þarf jákvæðan greiðslujöfnuð við útlönd.

b. Þar sem lánið vegna samningsins er í erlendri mynt verður að setja það inn í heildaráætlun um greiðslujöfnuð landsins þar sem tekið er tillit til allra annarra skuldbindinga Íslendinga, svo sem:

Bréf í eigu erlendra aðila (Jöklabréf).

IMF-lánið og lán Norðurlandanna.

Lán nýju bankanna.

Lán opinberra fyrirtækja sem ekki eru með tekjur til móts í erlendri mynt, t.d. Orkuveita Reykjavíkur.

Lán sveitarfélaga í erlendri mynt.

Lán íslenskra fyrirtækja og heimila.

c. Til þess að geta jafnvel bara borgað vaxtagreiðslurnar vegna þessa samnings þarf greiðslujöfnuður framtíðarinnar stöðugt að vera umtalsvert hærri en mesti afgangur af viðskiptajöfnuði Íslendinga síðustu 25 ár.

d. Skuldin sjálf mun valda lækkun á gengi ISK í framtíðinni og hugsanlega í mjög langan tíma ef illa tekst til.

e. Framlengir vandamálið með gengi krónunnar.

i. Stærðargráðan miðað við forsendur samningsins er sú sama og jöklabréfavandamálið.

ii. Þegar búið verður að leysa jöklabréfin úr kerfinu tekur Icesave-samkomulagið við.

iii. Útstreymi erlends fjármagns verður því viðvarandi næstu 15 ár hið minnsta.

f. Þetta þýðir að líkur á styrkingu krónunnar á næstu 15 árum eru nánast engar jafnvel þó að forsendur samnings gangi eftir. Jafnvel líkur á veikingu.

g. Forsætisráðherra segir að skuldin lækki um 6 milljarða kr. við 1% styrkingu krónunnar en hún hækkar þá einnig um 6 milljarða kr. við 1% veikingu hennar.

3) Lánshæfi.

a. Í dag er Ísland með lánshæfismatið BBB-. Lækkun á lánshæfismati er lækkun niður í neðsta flokk, svokölluð „junk bonds“.

b. Það er mjög mikilvægt að lánshæfismatið verði ekki junk bonds því það mun hafa alvarlegar afleiðingar í för með sér, svo sem:

Sveitarfélög: Ómögulegt að endurfjármagna sig?

Landsvirkjun: gjaldþrota?

c. Nauðsynlegt að stjórnvöld upplýsi hvaða lánshæfismatsfyrirtæki hefur staðfest að þessi skuldbinding hafi ekki áhrif á lánshæfismat.

i. Það var mjög mikið tjón að ekki hafi verið haft samband við matsfyrirtæki þegar ríkið þjóðnýtti Glitni að hluta. Þar vanmátu stjórnvöld áhrif aðgerða sinna. Við megum alls ekki við slíku nú.

ii. Lágmark að til staðar sé grein í samningnum um að endursamið verði komi til hugsanlegrar lánshæfislækkunar.

d. Ef ekki er búið að ræða við matsfyrirtæki og ekki er fyrirvari í samningnum, þá er hætta á því að óbætanlegur skaði verði á efnahag Íslands.“

Ég ætla ekki að lesa þetta allt þó að þetta sé ljómandi gott. Ég hvet alþingismenn sem og aðra sem áhuga hafa að fara á vefinn indefence.is en þar eru mikið magn af gagnlegum upplýsingum er varða Icesave sem og áskorun til forseta lýðveldisins um að leyfa þjóðinni að kjósa um þetta stóra mál er varðar með sanni alla þjóðina um langa hríð.

Ég verð að viðurkenna, kæri forseti, að það býr uggur í brjósti mér varðandi þetta mál. Ég hef verulegar áhyggjur af því að það megi ekki taka á álitamálunum í þessu frumvarpi vegna þess að við látum breska og hollenska embættismenn stjórna hér lagasetningu. Í raun og veru hefur komið skýrt fram hjá stjórnarliðum að þeim er nákvæmlega sama þó að nýjar upplýsingar komi fram sem gætu kallað eftir breytingum. Það hefur verið tekin ákvörðun af ríkisvaldinu, af embættismönnum að engu má breyta. Kannski er því vitagagnslaust að standa í því að reyna að benda á þær ambögur og á þá vá sem vaxtabyrðin af Icesave þýðir fyrir þjóð okkar. Kannski ætti ég bara að stinga hausnum í sandinn eins og hæstv. ríkisstjórn og láta eins og ekkert sé. Kannski ætti ég bara að samþykkja þetta eins og stjórnarliðar, samþykkja þetta án þess að hlusta á nagandi ónotatilfinninguna sem er innra með mér, samþykkja þetta því ég er orðin svo afspyrnu hundleið á þessu. Samþykkja vegna þess að annars koma móðuharðindi og botnfrost. Ég hef reyndar fréttir fyrir ykkur, kæru stjórnarliðar, það er botnfrost, sífreri sem verður ekki leystur með því að ganga í ESB eftir tvö, fimm eða tíu ár. Sífreri sem mun enda með ósköpum ef þið takið ekki hausinn upp úr sandinum og horfist í augu við þá afarkosti sem ESB setur okkur, að samþykkja Icesave ellegar sé samrunatilrauninni stefnt í voða. Það er sífreri, það er permafrost vegna þess að við erum að taka á okkur skuldbindingar sem við getum ekki staðið við. Með því að samþykkja Icesave í þeirri mynd sem það er núna er alveg ljóst að trúverðugleiki okkar mun ekki aukast í fjármálaheiminum.

Ég kalla því eftir að Stiglitz verði samstundis fenginn til ráðgjafar sem og Buchheit til að fara yfir heildarstöðu okkar, það er alveg ótækt að samþykkja það að tekjuskattur meira en 150.000 skattborgara landsins renni í að borga vexti af erlendum lánum. Það býr uggur í hjarta mér því að sá niðurskurður sem slík innheimta erlendra lánardrottna kallar eftir mun setja okkur á sama efnahagslega stað og þróunarríkin og það ku víst ekki vera eftirsóknarvert að þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna þar. Þau hafa líka aldrei verið svo lánsöm að búa við þau lífsgæði sem Íslendingar hafa notið vegna þeirrar gæfu að geta nýtt velflestar auðlindir okkar í þágu þjóðarinnar um langt skeið. Það naga mig að innan tilfinningar sem kalla má váboða og ég get ekki og ég vil ekki samþykkja þessa afarkosti nýlenduherranna fyrr en ég sé enga aðra leið út. Ég legg því til, frú forseti, að þetta frumvarp hæstv. fjármálaráðherra verði dregið til baka og við látum hin lögin standa sem voru þó að fyrirvararnir væru ekki fullkomnir með eitthvað sem ég hafði ekki eins miklar áhyggjur af vegna þess að þar var öryggisnet ofið til að tryggja að við færum ekki fram úr okkur með greiðslubyrði.

Frú forseti. Að samþykkja Icesave-frumvarp hæstv. fjármálaráðherra er ógæfuspor fyrir land og þjóð. Ég bið ykkur, kæru hv. samþingmenn, að grandskoða hug ykkar og hjarta og kynna ykkur allt það sem komið hefur fram sem vafaatriði. Ég bið ykkur um að gleyma því ekki að með því að samþykkja þetta frumvarp í óbreyttri mynd þá eruð þið að gefa skýr skilaboð til AGS og til Breta og Hollendinga um að lög Alþingis eru okkur ekki heilagri en svo að við breytum þeim til að þóknast erlendum lénsherrum.

Fullveldið er að veði, sjálfstæðið er að veði. Höfnum þessum afarkostum, höfum hugrekki til að sýna að við látum ekki umbreyta þjóð sem fyrir ári síðan var talin fimmta ríkasta þjóð í heimi, í nýlendu á ný. Sá tími sem við vorum nýlenda Dana er ekki tími sem við minnumst með söknuði, látum ekki hneppa okkur í hlekki skuldbindinga sem munu færast yfir á skert lífsgæði um áratugi fyrir börnin okkar og barnabörnin. Stöndum saman gegn þessari kúgun. Núna er ekki rétti tíminn til að sækja um ESB, það er engin reisn yfir því að koma að því borði fyrr en við höfum hysjað upp um okkur buxurnar og búið hér til reglugerðir sem tryggja að slíkt allsherjarklúður í fjármálum þjóðarinnar endurtaki sig aldrei aftur. Sýnum ábyrga hegðun með því að taka ekki á okkur meira en við getum valdið. Spyrjum okkur í hjartans einlægni hverju má fórna, hvort við viljum virkilega verða þjóð meðal nýlenduþjóða eða þjóð meðal sjálfstæðra þjóða.

Frú forseti. Við erum í efnahagsstríði, heimsbyggðin er að sigla inn í aðra kreppu og við ættum frekar að vera að einbeita okkur að matvælaöryggi landsins sem og öðrum grunnþáttum, við ættum að vera einbeita okkur að því að búa til þannig umhverfi fyrir fjölskyldur landsins sem búa yfir einstöku þolgæði gagnvart því sem hefur yfir þær gengið. Sýnum þeim að við ætlum ekki bara að taka frá henni heldur tryggja réttlæti. Notum það svigrúm sem AGS lagði til og afskrifum skuldir heimilanna frekar en skuldir 1998.