138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:37]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða og efnismikla ræðu. Ég ætla svo sannarlega að vona að margir hv. stjórnarþingmenn hafi verið að hlusta á ræðu hv. þingmanns og þau varnaðarorð sem hún hafði uppi þar. Hv. þingmaður las upp úr minnihlutaáliti frá tveimur þingmönnum, hv. þm. Ögmundi Jónassyni og hv. þm. Lilju Mósesdóttur, þar sem þau vara einmitt við þeirri skuldsetningu sem kemur fram og hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um það að síðasta sunnudag var upplýst í sjónvarpsþætti að mjög miklar umræður færu fram á hollenska þinginu um að íslenska þjóðin geti ekki staðið undir slíkri skuldbindingu. Hollendingarnir, sem er hinn aðilinn að samningunum, eru að ræða það á þingi sínu að sennilega sé þetta þannig að íslensk þjóð, eins og kom vel fram í ræðu hv. þingmanns, mun ekki geta staðið undir þessum skuldbindingum. Hvað finnst hv. þingmanni um það að mjög fáir stjórnarþingmenn og hæstv. ráðherrar skuli vera hér og taki ekki þátt í umræðunni og deili ekki þessum áhyggjum með hollenskum þingmönnum?