138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:21]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Það var nauðsynlegt að mínu viti að fá afstöðu þingmannsins fram, því að eins og hv. þingmaður benti réttilega á er þetta mjög umfangsmikið mál og hv. þingmaður hefur ekki enn getað komist að því að fjalla með ítarlegum hætti um þennan stóra hluta málsins.

Mig langar að vitna enn frekar í Sigurð Líndal, umfram það sem hv. þingmaður gerði, með leyfi forseta, í grein sem hann ritar í Fréttablaðið 19. nóvember árið 2009, og væri ágætt ef hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson legði nú við hlustir:

„Með frumvarpi því sem nú bíður afgreiðslu liggur vissulega fyrir lagaheimild, en verður ekki að gera þá kröfu að hún sé þannig úr garði gerð að skuldbindingum séu sett skýr takmörk og stofni þannig fullveldi ríkisins ekki í hættu? Og hér er álitaefnið hvort frumvarpið fullnægi þessum áskilnaði. Um það skal ekkert fullyrt, en hins vegar kemur á óvart að þessi þáttur virðist ekki hafa komið til almennrar umræðu. Væri nú ekki rétt að huga að þessu áður en frumvarpið verður samþykkt?“

Þetta er akkúrat það sem við höfum verið að tala um hér reyndar fyrir daufum eyrum, tómum stólum þar sem fyrir ættu að sitja þingmenn stjórnarmeirihlutans sem hafa mjög lítið verið í salnum í dag og látið lítið að sér kveða. Nú segir prófessor í lögum að það væri rétt að við skoðuðum þetta betur og það hljótum við að gera með því að ræða þetta mál í viðeigandi nefnd frekar en að rífast um það úr ræðustól Alþingis, án þess að geta kallað til þá sérfræðinga sem við mundum vilja ráðgast við. Það er gersamlega óskiljanlegt og með hreinum ólíkindum að meiri hluti Samfylkingar og Vinstri grænna skuli hafa neitað okkur því að kalla til gesti til að fara yfir svo mikilvægt mál sem þetta er, því að brot á stjórnarskránni sem við þingmenn höfum svarið eið að, er mjög alvarlegt mál og leitt til þess að vita ef þingmenn stjórnarmeirihlutans ætla að (Forseti hringir.) umgangast það af einhverri léttúð. (Gripið fram í: … marggert það.)