138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir mjög skörulega ræðu hér og efnismikla eins og hennar er von og vísa. Þar sem hún er lögfræðimenntuð hef ég nokkrar spurningar sem ég hef borið fram til annarra þingmanna í dag, sem snúa að friðhelgisréttindunum.

Í stuttu máli sagt, og það hefur oft komið fram að hér er um splunkunýtt mál að ræða, hefur nýja frumvarpið að mestu leyti verið fellt inn í gömlu Icesave-samningana sem viðauki við samninginn og því eru friðhelgisréttindin og yfirráðin yfir náttúruauðlindunum inni í Icesave-samningunum. Þrátt fyrir þá yfirlýsingu sem kemur fram í nýja frumvarpinu að það sé sameiginleg skoðun aðila málsins að virða beri friðhelgisréttindin og yfirráðin yfir náttúruauðlindunum, er það svo þegar ágreiningur sprettur upp að það eru dómstólar í viðkomandi ríki sem dæma í málum en ekki þeir viðsemjendur sem eru aðilar að samningunum, í þessu tilfelli ekki íslenska ríkið, ég tek það fram því að íslenska ríkið hefur framselt sín réttindi til innstæðutryggingarsjóðsins og svo eru það Bretar og Hollendingar, breska og hollenska ríkið.

Þar sem þarna er kominn samningur og réttur skilningur þar á milli og það er lagt til í frumvarpinu að dómstólavaldið fari úr landi líka, sem er mjög einkennilegt og ég hef farið yfir það í löngu máli, vil ég spyrja þingmanninn að því hvort hún óttist ekki þetta nýja ákvæði með þennan sameiginlega skilning ef á það reyndi fyrir breskum dómstólum. Bretar hafa lög um friðhelgisafsal þjóða frá 1978. Er ekki vel mögulegt að þessi réttindi falli inn í samninginn og þeir geti beitt þessum ákvæðum í dómsmáli þar sem það er skýrt afsal á friðhelgisréttindunum í upphaflegu samningunum, (Forseti hringir.) mig minnir að það sé 18. grein?