138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:35]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það er einstaklega gaman að standa hér þegar klukkan er u.þ.b. að verða tólf á miðnætti á þessum ágæta degi. Ég tel þetta vera merki um hinn fjölskylduvæna vinnustað sem hæstv. forseti Alþingis ákvað að breyta Alþingi í þegar hún tók hér við á nýju þingi. Það er einstaklega fjölskylduvænt, eins og fram hefur komið, að standa hér þegar klukkan er orðin þetta margt og mér skilst að það eigi að vera næturfundur og svo á þingfundur að hefjast hér klukkan hálfellefu í fyrramálið. Ég minni á það að á almennum vinnumarkaði verða að líða ellefu klukkutímar á milli vakta hjá fólki svo það ávinni sér ekki frírétt en svo er ekki hér í þessum harða heimi hjá frú forseta Alþingis.

Ég get sagt þingheimi það og landsmönnum öllum að ég geng með stjórnarskrána á mér þessa dagana því svo stór brot virðast vera framin hér á mörgum greinum stjórnarskrárinnar að eins gott er að maður sé með hana uppi við til að hafa það á hreinu í hvaða lagagreinar á að vísa þegar ríkisstjórnin fer fram með mál.

Grasrótin talar. Ríkisstjórnin getur ekki bundið vilja þjóðarinnar. Nú þegar hafa fleiri þúsundir Íslendinga skrifað undir áskorun Indefence-hópsins um að forseti Íslands skrifi ekki undir verði frumvarpið að lögum. Svo virðist sem meiri hlutinn hér á þingi hafi tryggt sér að þetta frumvarp verði að lögum, sem er afar sorglegt því að síðustu daga og vikur hefur svo sannarlega komið í ljós að þetta er forsenda þess að Íslendingar geti gengið í Evrópusambandið. Skilaboð hafa komið frá þingmönnum Evrópuþingsins og þetta hefur verið tekið fyrir í stofnunum Evrópusambandsins. Það er gott að það er komið hér fram grímulaust, þrátt fyrir að ríkisstjórnin hafi þrætt fyrir tengingu þessara mála í allt haust og reyni enn að þræta fyrir hana, og svo talar ríkisstjórnin nú um að Icesave sé að skemma Evrópusambandsumsóknina. Ég spyr: Er einhver hissa á því?

Bretar og Hollendingar eru að leggja klafa á íslenska þjóð, örþjóð norður við heimskautsbaug, sem hún getur ekki staðið undir. Það er ekki nema von að Íslendingar séu ekki áfjáðir í að ganga í Evrópusambandið nú um mundir. Hvernig verður samskiptum háttað við þessar þjóðir göngum við þar inn? Eitthvað allt annað virðist vera uppi á teningnum, hér er verið að ásælast auðlindir okkar og Ísland á landakorti heimsins. Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra í þarsíðustu viku kom fram að hann hefði nú þegar sett sig í samband við Færeyinga og Grænlendinga um hugsanlegt samstarf í aðildarumsókninni. Auðvitað vitum við hvar þessi lönd liggja í heiminum, þetta snýst m.a. um opnun siglingaleiða við norðurpólinn og hugsanlega olíu sem þar er undir, enda hafa Frakkar fyrir löngu síðan skipað sendiherra norðurslóða til að gæta hagsmuna sinna þar. Við skulum bara tala um þetta eins og það er.

Það dylst ekki að íslenska ríkið, íslenska þjóðin, íslenskir skattgreiðendur eru hin nýja auðlind Breta og Hollendinga því að þessar svokölluðu vinaþjóðir okkar ætla að hirða af okkur á milli 200 og 300 milljarða bara í vaxtamun. Ég hef svo sem enga sönnun fyrir því hvort Bretar og Hollendingar hafa þurft að taka lán til að greiða sparifjáreigendum í löndum sínum þessar innstæður eða hvort Bretar hafi t.d. bara prentað pund og þar með kynt undir sínu eigin hagkerfi en lagt á okkur byrðar upp á 5,55% vexti. Þetta er ekki ásættanlegt, herra forseti, þetta er svo mikil hneisa og fyrir þessu berst ríkisstjórnin.

Hæstv. forsætisráðherra bar það af sér hér í dag að hún gengi erinda annarra en íslensku þjóðarinnar. Það má vel vera að innst í hjarta sér finnist henni hún vera að gera rétt með þessu, að hún sé að berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar en hún er þá með önnur gleraugu en flestir landsmenn, hún sér málið í öðru ljósi. Hvernig er hægt að berjast fyrir hagsmunum íslensku þjóðarinnar með því að skuldsetja hana upp á a.m.k. 1.000 milljarða, við skulum hafa töluna á milli 800 og 1.000 milljarðar, sem eru ýtrustu kröfur sem settar eru á okkur? Ég get ekki séð það. Fyrir utan það að þessar greiðslur koma ekki til fyrr en eftir árið 2016. Hér virðist vera ein stefna í gangi hjá þessari ríkisstjórn og það er að skuldsetja landið norður og niður, ég ætla ekki að hafa sterkari orð um það.

Fjárveitingavaldið er alveg skýrt, það liggur hjá Alþingi. Í 21. gr. stjórnarskrárinnar er fjallað svo um fjárveitingavaldið, með leyfi forseta:

„Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.“

Hér er alveg skýrt að fjárveitingavaldið liggur í þessum þingsal og því er mjög undarlegt að komið skuli fram með þeim hætti að framkvæmdarvaldið undirriti slíka samninga án þess að kanna landslagið fyrst, hvort einhver meiri hluti sé fyrir þessu. Þar að auki snýst þetta um skatttekjur, því eins og hv. þm. Þór Saari minntist á í ræðu fyrr í vikunni þarf skattgreiðslur tæplega 80 þúsund Íslendinga til þess eins að standa undir vöxtunum af Icesave. Það eru 100 milljónir á dag sem fara bara í vexti af Icesave-samningnum, 100 milljónir á dag. Hvað væri hægt að gera fyrir 100 milljónir fyrir fólkið í landinu? Svo má ekki afskrifa eina einustu krónu hjá skuldugum og illa stöddum fjölskyldum. Þetta er farið að fara verulega fyrir brjóstið á mér.

Þar sem þessar Icesave-skuldbindingar leggjast sem skattur á íslensku þjóðina þá stendur í 40. gr. stjórnarskrárinnar að engan skatt megi leggja á, breyta eða taka af nema með lögum. Rétt er það. Ekki má heldur taka lán er skuldbindur íslenska ríkið né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild. Þarna er verið að verja friðhelgisréttinn til þess að lög þurfi til að geta afsalað sér einhverju með þessum hætti.

Ég minni á að núna er verið að leggja á ríkisábyrgð fyrir löngu orðnum hlut, bankahrunið varð hér síðasta haust, fyrir um það bil 14 mánuðum, en í 2. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar segir að enginn skattur verði lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu. Samkvæmt stjórnarskránni má einfaldlega ekki leggja ríkisábyrgð á eftir að atburður hefur orðið. Þetta er grafalvarlegur hlutur. Svo ræðum við náttúrlega líka hér um það stjórnarskrárbrot sem hv. prófessor Sigurður Líndal hefur bent á. Það er alveg sama hvað við vísum til lagagreina og drögum fram mörg rök og hversu vel þau eru studd, því stjórnarliðar hlusta ekki, það er látið eins og við séum hér að lesa Litlu gulu hænuna. Þetta er að verða mjög óþægileg staða fyrir ríkisstjórnina svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég talaði áðan um að fleiri þúsundir hefðu skrifað undir áskorun til forsetans um að undirrita ekki lögin langar mig aðeins að koma að þeim einstaka atburði hér í sumar að þegar forsetinn skrifaði undir lögin 2. september gaf hann út sérstaka yfirlýsingu. Sú yfirlýsing hefur ekkert gildi að lögum, af því að annaðhvort skrifar forseti undir lögin eða ekki og um það er ákvæði í 26. grein stjórnarskrárinnar — eins og ég sagði þá geng ég um með hana á mér. Þannig að ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveimur vikum eftir að það var samþykkt og veitist staðfestingin til lagagildis.

Hefði forsetinn hins vegar synjað lagafrumvarpinu hefði farið hér fram þjóðaratkvæðagreiðsla. Ég minni á það að í þinginu liggur fyrir frumvarp um þjóðaratkvæðagreiðslur. Forsetinn fór þarna einhverja millileið og gaf út yfirlýsingu sem hefur ekkert lagalegt gildi en er nokkurs konar viljayfirlýsing og sýn hans á frumvarpið, að fyrirvararnir hafi verið niðurstaða og samvinna fulltrúa fjögurra flokka og byggðir á tillögum og hugmyndum fjölda sérfræðinga og áhugafólks á almennum vettvangi. Þar sem forsetinn taldi að þetta samkomulag hefði náðst setur hann það sem ákveðna viljayfirlýsingu að þar sem fyrirvararnir eru svo sterkir hafi hann ákveðið að staðfesta lögin með þessari sérstöku tilvísun sem ég held hér á. Þá hlýtur það að vera skilningur forsetans nú þegar búið er að kollvarpa þeim lögum sem hann skrifaði undir með þessari einkennilegu yfirlýsingu, að hann komi til með að synja því frumvarpi sem nú liggur fyrir, einfaldlega vegna þess að allir fyrirvarar eru farnir úr því, búið er að draga tennurnar úr lögunum frá því í sumar sem sýnir þjónkun ríkisstjórnarinnar við hið evrópska vald Breta og Hollendinga, sem segja má að hafi nú orðið löggjafarvald yfir Íslandi, því þeim þóknaðist þetta ekki. Þeim þóknaðist ekki það sem var sagt í aðfaraorðum frumvarpsins og laganna, að frumvarpið skyldi vera lagt fyrir þá til samþykktar eða synjunar, ríkisstjórnin gaf eftir í því máli, samninganefndin kom heim með skottið á milli lappanna, þar sem þeir komu með gagntilboð. Hér var mikið talað um það í sumar hvort þetta væri gagntilboð eða sjálfstæðir fyrirvarar. Samninganefndin lét lemja sig heim á nýjan leik.

Ég minntist á í fyrri ræðu minni í dag að ég hefði setið fund í fjárlaganefnd þangað sem Seðlabankinn kom og kynnti ákveðna hluti sem fjárlaganefnd hafði farið fram á að hann gerði og eru komnir inn í nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar. Við þessa yfirferð í fjárlaganefnd vöknuðu hjá mér spurningar og í samráði við Höskuld Þórhallsson, fulltrúa okkar í fjárlaganefnd, var send beiðni á Seðlabankann. Fjárlaganefnd Alþingis fór fram á það við Seðlabankann að þessum spurningum yrði svarað. Mér finnst lítið hafa verið rætt um þá staðreynd að við stöndum hugsanlega frammi fyrir greiðslufalli því samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum koma árið 2011 til greiðslu lán hjá íslenska ríkinu upp á samtals 1.448 milljónir evra. Þetta er engin smáupphæð og það er nú svo að mér skilst að einungis sé búið að fjármagna 75% af þessu. Plottið á bak við það að samþykkja Icesave-samningana er það að með því að samþykkja þá er ríkið að viðurkenna að það standi við skuldbindingar sínar. Að ríkið standi við skuldbindingar sínar til að það geti tekið meira af lánum til að endurfjármagna gömlu lánin. Já, herra forseti, þetta er óhugguleg staða að ríkið þurfi að taka á sig skuldir upp á allt að þúsund milljarða sem við berum ekki ábyrgð á til þess eins að geta tekið meira af lánum. Þetta kemur skýrt fram í þessu plaggi, þessu minnisblaði, sem Seðlabankinn lagði fram en þar eru einar þrjár blaðsíður um hvað gerist þegar greiðslufall þjóðar verður. Til dæmis stendur orðrétt á blaðsíðu 18 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, með leyfi forseta:

„Til þess að geta endurfjármagnað skuldir sínar þá verða ríki að geta sýnt að þau ætli að standa við skuldbindingar sínar. Ríki sem hefur lítið traust vegna síendurtekinna greiðsluerfiðleika getur oft ekki aflað lánsfjár þannig að skuldabyrðin verður mjög há.“

Þarna kemur þetta svart á hvítu í athugasemdum frá Seðlabankanum, en það er svo sem ekkert látið með þetta.

Af máli forsætisráðherra fyrr í dag — hún talaði á eftir mér — má dæma að einhvers misskilnings virðist gæta, því hún telur að matsfyrirtæki komi til með að meta lánsmat íslenska ríkisins mjög hátt ef við samþykkjum Icesave-samningana. Þetta snýst ekki um það. Við erum núna í flokki BB- og hættan á því að falla niður í ruslflokk samþykkjum við ekki þetta frumvarp er sú yfirlýsing að ef við höfnum frumvarpinu ætlum við ekki að standa við skuldbindingar okkar, en við höfum aldrei viðurkennt greiðsluskyldu á Icesave-reikningunum. Þar liggur ágreiningurinn. Það er nöturlegt að verða vitni að því hér á Alþingi að við fulltrúar þjóðarinnar sem sitjum hér 63 talsins skulum vera með þennan ágreining, að svona mikil skoðanaágreiningur skuli vera, því ef þessi ríkisstjórn væri að vinna heimavinnuna sína, ættum við að vera hér sammála öll 63 um að berjast við Breta og Hollendinga, en ekki berjast innbyrðis. Þetta er staðreyndin, svona er þetta.

Þar sem ég vitnaði í spurninguna sem ég sendi Seðlabankanum er hér tafla nr. 2 sem hægt er að finna á bls. 12 í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar, en í henni má sjá spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um skuldir hins opinbera í nokkrum ríkjum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Þar kemur fram í spá fyrir Ísland 2014 að skuldirnar verði 114,7% af vergri landsframleiðslu á meðan Japan er í 234,2% af vergri landsframleiðslu.

Japanar koma svo rosalega hátt inn út af því að þeir lentu í miklum erfiðleikum um síðustu aldamót og duttu í þá gryfju að lengja og lengja og lengja lánin eins og ríkisstjórnin vill gera hér og ekki afskrifa nein lán, þannig að þetta er það sem bíður okkar.

Það sem ég spurði Seðlabankann um út frá þessari töflu er að í töfluna vantaði frekari greiningu á samsetningu skulda viðkomandi ríkja í eigin mynt og erlendum myntum, því það getur haft töluverð áhrif hvort ríki skuldi í innlendri mynt eða erlendri. Ég minni á það að allar skuldir okkar koma erlendis frá, Ísland hefur verið fjármagnað í útlöndum, eins og allir vita. Það sem ég spurði Seðlabankann um út frá þessari töflu var það hvort upplýsingar væru til um hvernig skiptingin í erlendri mynt og eigin mynt af heildarskuldum ríkja hafi verið þegar þau hafa farið í greiðsluþrot. Seðlabankinn svaraði því til að hann hefði ekki upplýsingar um þetta, um gjaldmiðlaskiptasamninga þessara ríkja, þannig að það liggur í hlutarins eðli að þetta eru erlendar skuldir líkt og hér á landi.

Hér eru fleiri spurningar sem ég verð að koma að í ræðu minni seinna, því ég er ekki hætt að tala. Tíminn líður svo hratt og ég á eftir að fara enn og aftur ofan í þetta mál.

Mig langar líka til að vísa aðeins í töflu 3 á bls. 14 í nefndaráliti meiri hlutans. Þar er tafla sett upp um erlenda stöðu þjóðarbúsins og þar eru opinberar tölur eða erlendar skuldir alls rúmlega 14.000 milljarðar og þá eru föllnu bankarnir þar inni í. Í næsta dálki koma erlendar skuldir alls án gömlu bankanna og það eru 3.322 milljarðar. Þarna er búið að taka gömlu bankana út, en eins og síðar kom í ljós, fari það svo að nýju bankarnir yfirtaki gömlu bankana, verður skuldastaða íslenska ríkisins rúmir 14.000 milljarðar, því ekki er komið á hreint hvernig gengur að endurreisa bankana, ríkisstjórnin frestar því og frestar og ræður ekki við verkefnið.

Þar sem þetta kemur fram 2009 án gömlu bankanna, vil ég minna á að þarna eru Icesave-reikningarnir ekki inni í og ekki áætlaðar lántökur frá Norðurlöndunum og Póllandi, þannig að erlendar skuldir okkar 2009 eru 4.500 milljarðar, hvorki meira né minna. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá þar sem tími minn er búinn.