138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:01]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér á landi hafa verið sett lög sem brjóta gegn stjórnarskránni. Nefni ég þar til sögunnar öryrkjadóminn og Valdimarsdóminn svokallaða en þar var brotið á fiskveiðilöggjöfinni en þá var hægt að sýna fram á að þetta væri brot á fáum einstaklingum og beindist að einstaklingum á einhvern hátt. Hér er um svo víðfeðmt mál að ræða að ef þessi lagaheimild fer í gegn og það er brot á stjórnarskránni, þá verður að öllum líkindum einhver aðildarskortur að því leyti að þetta beinist gegn íslensku þjóðinni allri. Til að geta höfðað dómsmál þarf maður að vera aðili að því dómsmáli og í seinni tíð hefur reynt mjög mikið á tæknileg útfærsluatriði fyrir dómstólum frekar en efnisleg. Það sem gerist ef í ljós kemur að Alþingi setur lög sem brýtur gegn stjórnarskrá að þá fer það fyrir héraðsdóm og er svo síðan áfrýjað eða kært til Hæstaréttar. Þessi leið er fær.