138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum kærlega fyrir spurninguna. Það er búið að setja lögin sem voru samþykkt hér, er okkur sagt, inn í þennan viðaukasamning. Brussel-viðmiðin eru ekki þar inni að mínu mati, það er búið að setja þau inn sem viðaukasamning. Það eru allir sammála um að það er búið að gerbylta þeim fyrirvörum sem settir voru í sumar að öllu leyti þannig að við þurfum ekki að ræða það neitt meir. Þetta er orðinn viðaukasamningur við Icesave-samningana og falla þá undir bresk lög eins og þingmaðurinn sagði. Þar sem við erum að borga vexti, 100 millj. á dag, og við erum að borga þessa Icesave-samninga svo lengi sem skuldin lifir og hún á eftir að lifa í fleiri tugi ára, þá er það svo og því var breytt eins og þingmaðurinn kom inn á. En varðandi það að fara inn í samningana ef við getum ekki borgað vexti og taka þá upp, þá er það svo að ég er ekki viss um að það sé það sem Bretar og Hollendingar eru að hugsa um. Það er kannski eitthvað annað sem liggur undir, því að hér er verið að taka allsherjarveð í eigum Íslendinga og eins og ég hef sagt þá eru ákvæðin um fyrirvarana og náttúruauðlindirnar komnar inn í viðaukasamning og það er skilningur samningsaðila að þessum ákvæðum sé hlíft en svo er ekki, því að eins og ég hef bent á er dæmt eftir breskum lögum. Við framsóknarmenn vorum í sumar alla tíð að biðja um erlenda ráðgjöf því að bresk lög, hin svokölluðu Common Law, eru allt annað réttarkerfi, allt annað lagakerfi, allt öðruvísi dómar sem má fella. Þar eru fordæmisgefandi dómar og þar er raunverulega löggjöfin í þróun alla tíð. Við lögðum áherslu á að fá sérfræðinga. Ríkisstjórnin nýtti ekki tímann til þess í sumar, hún hefur ekki gert það núna. Við sitjum uppi með þessa ömurlegu samninga og því miður þessa ömurlegu ríkisstjórn.