138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Það er reyndar skrifað inn í þessa samninga líka að ef dæmt verður í, ef við sækjum mál vegna setningu hryðjuverkalaganna sem voru mjög óréttlát þar sem Bretar og Hollendingar settu okkur á bekk með al Kaída og slíkum samtökum. Nú er það skrifað inn í samninginn að verði okkar dæmdar bætur hugsanlega þá erum við búnir að falla frá þeim, íslenska ríkið er búið að falla frá bótum en síðan hafa menn haldið því fram að það muni aldrei verða dæmt samkvæmt enskum lögum þannig að við fáum bætur. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvers vegna er þetta þá inni af hálfu Breta og Hollendinga? Hver er skoðun hennar á því að Bretar og Hollendingar setji þetta sérstaklega inn í samninginn? Hvers vegna gera þeir það með þeim hætti? Eru ekki einhverjar líkur á því að það gæti gerst að við fengjum hugsanlegar bætur vegna setningu hryðjuverkalaganna?

Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvað henni finnist um það að við séum núna að taka að okkur að greiða vexti frá 1. janúar sem okkur ber ekki lagaleg skylda til sem eru ekki nema 35 milljarðar.