138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

slökkvilið Reykjavíkurflugvallar.

[10:42]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það liggur í augum uppi að það ógnar flugöryggi að vera ekki með menntaða sérfræðinga í slökkviliðinu á flugvellinum. Það er eins og, mætti ímynda sér, að vera ekki með einhverja sem hafa reynslu af eldvörnum í eldvarnaeftirlitinu eða með reynslu af lækningum á spítalanum. Mér finnst þetta svar því mjög undarlegt hjá ráðherra og ég óska eftir að hann svari því hvort hann sé sammála því og hvort hann ætli að samþykkja það að á Reykjavíkurflugvelli verði ekki menntaðir slökkviliðsmenn því að það er alveg augljóst og ég bið þingmenn að taka eftir því vinsamlegast, frú forseti, að það mun þá verða reyndin á öllum öðrum flugvöllum þar sem krafist er að vera með slökkviliðsmenn eða brunaverði. Ég óska eftir að ráðherra svari því hvort hann ætli að láta það ganga í gegn að það verði auglýst eftir svokölluðum flugvallarvörðum sem hafi reynslu af slökkvistörfum en enga menntun og hafa þess vegna ekki þá þekkingu sem til þarf. Það er rétt að það þarf meirapróf til þess að vera í slökkviliðinu en þar fylgir þá líka menntun og reynsla í slökkvistörfum.