138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

niðurskurður hjá grunnskólum.

[10:55]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn því að þetta er auðvitað stórt áhyggjuefni, staða sveitarfélaga um land allt og rekstur grunnskóla. Rekstur grunn- og leikskóla er yfirleitt meiri hluti og allt upp í 90% af rekstri sveitarfélaga um landið þannig að hann er misstór hluti af rekstri sveitarfélaga, allt frá um það bil helmingi og upp í 90%, og staða sveitarfélaganna er líka mjög mismunandi núna þegar kemur að niðurskurði. Hins vegar kveða lög um grunnskóla á um að jafnræðis skuli gætt, þ.e. að ákveðinn tímafjöldi og dagafjöldi sé kenndur og aðalnámskrá er í gildi þannig að þó að grunnskólinn hafi verið færður frá ríki til sveitarfélaga á sínum tíma er það hlutverk ríkisins að gæta að því að jafnræði sé haft í heiðri. Þegar kemur að niðurskurði í sveitarfélögum hafa verið uppi ýmsar hugmyndir sem sveitarfélögin hafa teflt fram sem varða tímabundnar heimildir, eins og kunnugt er, til að fækka dögum eða til að fækka kennslustundum. Ég vil skoða þessar hugmyndir mjög vel því að mér finnst þetta vera einn af þeim mikilvægu póstum sem við verðum að gæta sérstaklega að og mín skoðun er sú að niðurskurðurinn bítur meira á yngri skólastigum en eldri. Það er minni aðlögunarhæfni á yngri skólastigum en eldri. Það er erfiðara að taka tímabundna skerðingu á þeim tíma og sú hætta er auðvitað alltaf fyrir hendi, ef farið er út í skerðingar, hversu langan tíma tekur að endurheimta það sem skert er.

Ég held að þetta þurfi að skoða mjög nákvæmlega. Hv. þingmaður spyr um hvort ástæða sé til að færa grunnskólann frá ríki til sveitarfélaga. Ég vil ekki segja til um að það sé endilega rétt að færa þetta allt til ríkisins því að það var auðvitað gríðarstór aðgerð á sínum tíma. Ef við horfum t.d. til nágrannalanda okkar hefur þessi þjónusta yfirleitt verið á hendi sveitarfélaganna og hefur raunar mun meiri þjónusta verið á hendi sveitarfélaga. Hins vegar þarf auðvitað að skoða hvernig þetta gengur almennt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ég held að það sé hluti af því mati (Forseti hringir.) sem þarf að fara fram núna hvernig sveitarfélögunum gengur að inna af hendi þessa þjónustu og hvernig ríkið getur komið til aðstoðar í þeim efnum.