138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

bréfaskipti milli forsætisráðherra Íslands, Bretlands og Hollands.

[10:58]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Það hefur mikið verið rætt um bréfaskipti hæstv. forsætisráðherra við forsætisráðherra Breta og Hollendinga. Það hefur vakið athygli hversu langan tíma það tók hæstv. forsætisráðherra að upplýsa þing og þó einkum þjóð í gegnum fjölmiðla um þessi bréfaskipti. Ég ætla að rekja nokkrar dagsetningar:

Hæstv. forsætisráðherra skrifar þessum aðilum 28. ágúst. Það líður og bíður. 12. nóvember svarar hæstv. forsætisráðherra Hollands bréfinu og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir birtir það svar 17. nóvember. 13. nóvember fær hæstv. forsætisráðherra svar frá Gordon Brown og svarar honum þann 17. nóvember, sama dag og hollenska svarið var birt, en ákveður að birta ekki breska svarið eða þau samskipti fyrr en 25. nóvember þegar eftir því var leitað af Stöð 2.

Mig langar til að spyrja hæstv. forsætisráðherra: Eru einhver fleiri bréfaskipti sem hæstv. forsætisráðherra getur upplýst okkur um að hafi átt sér stað á milli hennar og þessara forsætisráðherra og eftir atvikum annarra forsætisráðherra eða þjóðarleiðtoga Evrópuríkja vegna þessara mála? Af hverju tók hæstv. ráðherra þessa ákvörðun um að birta ekki þessi samskipti öll í einu fyrst þetta gerðist allt á sama tíma? Síðan vekur það reyndar athygli mína, en það er kannski ekki neitt sem hæstv. forsætisráðherra getur svarað, að þessi bréf tvö frá Bretlandi og Hollandi eru nánast samhljóða. Ef maður ber þau saman eru þau hvort um sig fjórar málsgreinar. Efnisatriði hverrar málsgreinar fyrir sig eru nánast samhljóða. Var leitað eftir ítrekun við þessum bréfum af hálfu hæstv. forsætisráðherra? Hefur hún skýringar á því af hverju þessum ágætu mönnum tókst að bíða í tíu vikur mínus einn dag (Forseti hringir.) og senda nánast samhljóða bréf til hæstv. forsætisráðherra að því loknu?