138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég held að það sé mjög mikilvægt að forseti taki það til alvarlegrar íhugunar sem kom fram í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar. Hér var borin upp tillaga um breytingu á dagskrá í ljósi þess að stjórnarandstaðan vildi sýna það í verki að hún væri reiðubúin til að þessi mál sem þarf að ræða, fjáraukalög, skattamál og annað færu í umræðu og síðan til nefndar. Ég vil ítreka að það stendur til að fara þá leið því að ég er sammála þeim, þar á meðal stjórnarþingmönnum og ráðherrum, sem hafa sagt hér að það sé mikilvægt að þessi mál komist áfram og við viljum leggja okkar af mörkum varðandi það.

Mig langar líka, frú forseti, að spyrjast fyrir um það, af því að það hefur ekki verið rætt við þingflokksformenn, að funda með forseta varðandi þinghaldið í dag eða næstu daga, hvort sá fundur verði haldinn nú fljótlega eða síðar í dag.