138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:11]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég er almennt hlynntur því að menn fái að segja hér það sem þeir vilja en menn verða að gæta sín. Í gær féllu ummæli hjá hv. tveimur hv. þingmönnum þar sem einum tilteknum þingmanni í stjórnarliðinu var nánast brigslað um landráð og menn verða að gæta sín í þessari umræðu þótt hún sé heit.

Varðandi það sem hv. þm. Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir hér varðandi boð stjórnarliðsins kemur nú fram það sem ég hef stundum sagt: Málþóf er tvíeggjað sverð. Menn mega að sjálfsögðu tala eins og þeir vilja. Ég hef alltaf varið rétt stjórnarandstöðunnar til þess, en það er stundum hættulegt og nú er Sjálfstæðisflokkurinn, sem hefur leitt Framsóknarflokkinn inn í málþóf í þessu máli, (Gripið fram í.) orðinn hræddur um sína stöðu (Gripið fram í.) vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn skynjar að hann hefur engan stuðning úti í samfélaginu fyrir því að halda öllum brýnustu fjárlagamálum ríkisstjórnarinnar í gíslingu (Gripið fram í.) til að tala sig hásan um Icesave (Forseti hringir.) án þess að það komi nokkru sinni neitt (Gripið fram í.) nýtt fram í þeim ræðum. (Forseti hringir.) Sjálfstæðisflokkurinn ætti bara að skammast sín (Gripið fram í.) til þess að hætta málþófi ef hann er hræddur við sína eigin þátttöku í því. (Forseti hringir.) Menn verða að standa undir því ef þeir leggja í slíkan leiðangur. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)