138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:14]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Frú forseti. Okkur þingmönnum er stundum tíðrætt um að gæta þurfi að virðingu Alþingis. Það gerir enginn nema þingmenn sjálfir. Ég vil beina þeim fyrirmælum til hæstv. forseta og forsætisnefndar að það sé rætt og þess sé gætt að jafnt þingmenn sem og hæstv. ráðherrar — stundum er vart hægt að nota það orð — gæti sín í þingsal jafnt í orðræðu sem í frammíköllum og við stöndum saman um það ef við ætlum að efla virðingu þingsins að gæta þess almennt sem við segjum. Framkoma okkar undanfarna daga, á sumarþingi og á þessu haustþingi, er okkur þingmönnum ekki til sóma og það er okkar að laga það. Brigslyrði, að einn sé vændur um eitt og hinn um annað, eru okkur heldur ekki til sóma. Tökum á því hvert og eitt, virðingu Alþingis eflum við hvert og eitt en ekki með slíkum (Forseti hringir.) orðaflaumi sem hér á sér stundum stað. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)