138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ræðutími í óundirbúnum fyrirspurnum o.fl.

[11:19]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég verð að segja það að mér sárnuðu aðeins orð hæstv. utanríkisráðherra áðan. Það lá fyrir dagskrártillaga í nótt um að breyta dagskránni og hún var felld af stjórnarliðum. (Iðnrh.: Þarf þá eitthvað að ræða hana?) (Gripið fram í.) (Iðnrh.: 30:17.) Fyrirgefið, frú forseti. Er ekki ástæða til að gera athugasemd við frammíköll hæstv. iðnaðarráðherra?

(Forseti (ÁRJ): Þingmaðurinn hefur orðið.)

Mér sárnaði þetta mjög og sérstaklega orð hans varðandi málþóf því að vilji stjórnarandstöðunnar til að breyta dagskránni liggur alveg fyrir, að taka þessi mikilvægu mál fram fyrir Icesave-umræðuna. En ég verð að segja fyrir sjálfa mig að ég tel alls ekki að ég sé tilbúin að gefa frá mér málfrelsið í Icesave-málinu sjálfu því að þegar ég talaði í gær var ég mjög stutt komin í ræðu minni, enda mjög stórt og viðamikið mál, eins og hæstv. utanríkisráðherra þekkir. Og svo mótmæli ég því harðlega að talað sé um að Sjálfstæðisflokkurinn leiði Framsókn eitt eða neitt nú orðið. (Gripið fram í: Nú orðið.) [Hlátur í þingsal.]