138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Þessir útreikningar eru í raun byggðir á því að svona vel er gefið í með framtíðina hvað varðar vaxtahækkanir þannig að vextir hækka mjög hratt og verða mjög háir. Ég treysti mér ekki til þess að spá fyrir um vaxtastig. Ég hef gagnrýnt Seðlabankann fyrir hvað hann hefur verið gírugur í að spá hagvexti langt fram í tímann. Við þingmenn í nefndum höfum haft miklar efasemdir um að spá svona langt fram í tímann og höfum bent á að það skapi mikla óvissu sem geti skapað áhættu og þessari áhættu eigum við að reyna að eyða.

Það sem ég gerði til þess að vinna upp það að spá ekki nákvæmlega fram í tímann var að gefa bara vel í varðandi vextina og láta þá hækka mikið fram yfir föstu vextina. Við vitum vel og það þarf engan geimvísindamann til að sjá að vextir munu verða lágir næstu tvö, þrjú árin en stabbinn er líka stærstur einmitt næstu tvö, þrjú árin þar sem hann safnar á sig mestu vöxtunum. Ég get því sagt með nokkuð mikilli vissu, ég mundi segja að það væri innan 99% öryggismarka, að þeir vextir sem ég nota næstu tvö árin séu raunhæfir.