138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:11]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er hárrétt athugað. Það er alls ekki séð fyrir endann á því mikla áfalli sem reið yfir heiminn í september, október í fyrra, það byrjaði reyndar fyrr í Bandaríkjunum og Bretlandi en stendur líka mun lengur þar. Eins og ég rakti í ræðu minni virðast nú vera miklar líkur á því að Dúbaí fari sömu leið og Ísland og að það gerist þá núna á næstu dögum. Það mun seinka þessum efnahagsbata. Allt sem eykur niðursveifluna og lengir hana leiðir til þess að vextir verða lágir næstu missiri og jafnvel ár. Við skulum vona að hv. þingmaður hafi á röngu að standa um að það verði næstu sex, sjö ár vegna þess að þá horfir heimurinn fram á (Forseti hringir.) gríðarlega erfiða tíma.