138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:23]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég vil líkt og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson vekja athygli á því að þetta mál er flutt af meiri hluta fjárlaganefndar og hvorki formaður né varaformaður nefndarinnar hafa setið í salnum undir þessari umræðu. Ég stóð í þeirri trú að þeir væru annars staðar í húsinu að fylgjast með umræðunni, og nú sé ég að varaformaður fjárlaganefndar er í hliðarherbergi, (BVG: Alltaf á staðnum.) en þeir hafa ekki mikið tekið þátt í þessari umræðu og nú liggur fyrir að þessir hv. þingmenn eiga að vera á öðrum fundi úti í bæ klukkan eitt og þá væntanlega fram eftir degi. Ég vonast til þess að frú forseti gæti að þeirri virðingu þingsins að þeir aðilar sem flytja málið við 2. umr. séu í það minnsta í húsinu og viðstaddir umræðuna. Þess vegna er óhjákvæmilegt annað en að fresta umræðunni ef þeir verða að vera á þessum fundum. Ég held að það sé mjög eðlileg bón af okkar hálfu.