138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:26]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Þar sem nú er komið hádegi vil ég nefna að það hlýtur að vera heppilegt fyrir framhald þingstarfa í dag að fundur þingflokksformanna verði kallaður saman sem fyrst þannig að hægt sé að taka ákvörðun um hversu lengi þingfundir muni standa. Þeir þingmenn sem vissulega hafa mörgum hnöppum að hneppa og mörgum störfum að sinna geta þá skipulagt daginn þannig að þeir geti hámarkað viðveru sína til að taka þátt í þessari umræðu, þannig að menn viti hvenær þeir eiga möguleika á því að komast inn á mælendaskrá o.s.frv. Þetta er engin frekjukrafa af hálfu stjórnarandstöðu heldur skynsamleg tilhögun á því hvernig hægt er að koma störfum þingsins fyrir þannig að sem mest gagn verði af fyrir þingið og þá um leið fyrir þjóðina.

Ég beini þeim vinsamlegu tilmælum til forseta að hún kalli fólk hið fyrsta saman og gefi upp (Forseti hringir.) hvenær hægt verði að halda slíkan fund. Við þingflokksformenn stjórnarandstöðunnar erum örugglega tilbúnir til að koma hvenær sem er.