138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:27]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Dögum og vikum saman hafa stjórnarandstæðingar komið í ræðustól við öll möguleg tækifæri undir störfum þingsins, í óundirbúnum fyrirspurnum, um fundarstjórn forseta og í þingræðum algerlega óskyldum málinu til að ræða Icesave-samningana. Á þessu hefur staðið dögum og vikum saman.

Þegar málið síðan komst á dagskrá í síðustu viku var óskað eftir lengri umræðu um málið sem auðvitað var orðið við. Síðan hafa stjórnarandstöðuþingmenn komið í röðum hver af öðrum, stundum oft á dag, hreinlega vælandi yfir því að þurfa að ræða þetta mál, (Gripið fram í.) biðjast undan umræðunni, leggja fram tillögur um að það verði tekið af dagskrá og ekki lengur rætt. Síðast í morgun í umræðu um störf þingsins var rætt um (Forseti hringir.) Icesave-málið en um leið og umræðan sjálf hófst (Forseti hringir.) biðjast menn undan henni. (Gripið fram í.) Virðulegi forseti. Það er ekki nokkur einasti botn í þessu máli. (Gripið fram í.)