138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vildi taka til máls til að leiðrétta misskilning hv. 8. þm. Norðausturkjördæmis um að Sjálfstæðisflokkurinn eða stjórnarandstaðan væri ófús að taka þátt í umræðum um Icesave-málið. Þvert á móti sjáum við eins og málin hafa nú þróast og mælendaskráin hefur verið að það hefur einkanlega verið stjórnarandstaðan sem hefur tekið þátt í þeirri umræðu. Við höfum þvert á móti kallað eftir því að stjórnarliðar kæmu og tækju virkan þátt í þessari umræðu vegna þess að það skiptir líka miklu máli að menn geti skipst á skoðunum einmitt í ræðustóli Alþingis. Ef við skoðum mælendaskrána sem fram undan er minnir mig að einir tíu þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu á henni þannig að það er ekki hægt að segja að við biðjumst undan þessari umræðu, öðru nær.

Við höfum þvert á móti viljað greiða fyrir þingstörfum og því að hægt sé að ljúka fjárlagavinnunni fyrir jólin með því að breyta dagskrárröðinni, taka fyrir þau mál sem eru á dagskrá eftir Icesave-málið og taka síðan síðar til við Icesave-málið. Það er margyfirlýst af mörgum hv. þingmönnum úr stjórnarliðinu (Forseti hringir.) að það liggi ekkert á að ljúka Icesave-málinu, það megi t.d. ræða það fram í febrúar.