138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:05]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég varð að fara hratt yfir sögu í ræðu minni eðli málsins samkvæmt en get hugsanlega komið betur inn á þetta atriði síðar í umræðunni. Það sem málið snýst um er að þegar við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu árið 1994 voru tengsl íslenskra dómstóla og EFTA-dómstólsins formuð með ákveðnum hætti til að tryggja fullveldi Íslands. Íslenskir dómstólar áttu að geta leitað álits hjá EFTA-dómstólnum, fengið ráðgefandi álit þar en væru á engan hátt bundnir af því. Þetta var talið tryggja fullveldi Íslands eins og það er skilgreint út frá stjórnarskrá. Um það hefur reyndar verið deilt en þetta varð alla vega niðurstaða meiri hluta Alþingis og mjög færra sérfræðinga á sviði stjórnskipunarréttar. Lykilatriðið í því var að álit EFTA-dómstólsins væri ráðgefandi en ekki bindandi.

Í þessu frumvarpi er talað um ráðgefandi álit EFTA-dómstólsins en það er alveg ljóst af textanum og greinargerð með frumvarpinu að til þess að niðurstaða íslensks dómstóls geti leitt til þess að íslenskar réttarreglur gildi um tiltekin atriði þarna verður að koma ráðgefandi álit í tiltekna veru frá EFTA-dómstólnum. Þetta er kallað ráðgefandi en er í raun bindandi. Þetta held ég að sé algjört nýmæli í lögum okkar og þarna tel ég að verið sé að fara út á mjög grátt, ef ekki svart, svæði varðandi stöðu fullveldisins gagnvart stofnunum EFTA og Evrópu.