138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel reyndar að þessar vangaveltur muni kannski ekki verða mjög raunhæfar vegna þess að ég hygg að þegar Bretar og Hollendingar eru komnir með lánasamninga í gildi og skuldabréf sem þeir geta byrjað að innheimta muni þeir bara innheimta það samkvæmt efni lánasamninganna og skuldabréfsins. Þeir munu bara fylgja því eftir, þeir munu rukka. Ég hef enga trú á því að þeir fari aðrar leiðir. Við verðum að átta okkur á því að í öllu þessu máli eru heimildir Íslendinga til þess að leita réttar síns mjög takmarkaðar og þær eru enn þá takmarkaðri í þessari nýju útgáfu málsins en var áður.

Aðalmálið sem held ég að menn verði að hafa í huga í þessu sambandi er að þegar þessi samningur er kominn í gildi, sem gerist ef Alþingi samþykkir þetta frumvarp, byrja Bretar og Hollendingar að rukka. Vaxtaklukkan tifar, þeir safna upp, bæta á höfuðstólinn og byrja svo að rukka. Mér sýnist að samskipti þjóðanna í þessu máli öllu gefi okkur ekkert tilefni til þess að halda að þeir muni slaka á þeim kröfum sem þeir geta gert á grundvelli undirritaðra lánasamninga og skuldabréfa. Þeir munu bara rukka.

Varðandi gildi bréfa forsætisráðherranna almennt finnst mér þessi bréfaskrif, bæði af hálfu forsætisráðherra Íslands og þó einkum af hálfu forsætisráðherra Breta og Hollendinga, vera fyrir neðan allar hellur. Það er ekkert í þessu. Forsætisráðherra fer fram með slöppum hætti, hennar hlutverk var að fylgja eftir fyrirvörunum. Ekki bara segja þeim frá því að þessir fyrirvarar hefðu verið samþykktir heldur fylgja þeim eftir af sannfæringarkrafti eins og hún sagði sjálf í ræðustóli Alþingis. Það gerir hún ekki og svör forsætisráðherra Breta og Hollendinga eru auðvitað móðgun við (Forseti hringir.) forsætisráðherra Íslands og íslenska þjóð.