138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Við ræðum hér stóran samning sem mun skipta íslenska þjóð verulegu máli og inn í þann samning koma ótrúlega margar breytur þannig að erfitt er að sjá fyrir hvað getur haft áhrif á hann. Til dæmis komu í gærkvöldi fréttir um vandræði í Dúbaí sem hræra núna í verðbréfamörkuðum í heiminum. Slík staða getur t.d. lækkað virði eigna Landsbankans, sem eru mjög víða, og gert það að verkum að þessi skuldbinding sem við ræðum nú verði enn hærri en menn gera ráð fyrir. Mjög margir óvissuþættir og mjög mikil áhætta er í þessu dæmi og það sem Alþingi reyndi að gera í sumar þegar það setti inn ákveðna fyrirvara var einmitt að minnka áhættu þjóðarinnar á því að lenda í áföllum, sama hvort um er að ræða jarðskjálfta, fiskileysi, að neyðarlögin haldi ekki — sem er frekar ólíklegt — eða að ekki verði verðbólga í Bretlandi eða jafnvel verðhjöðnun þar sem er kannski mesta áfallið sem við gætum lent í.

Í sumar var reynt að taka á þessum málum með fyrirvörum sem sérstaklega takmörkuðu áhættuna í tíma, þ.e. hún átti að renna út 5. júní 2025. Reyndar átti að setjast niður aftur og semja, frú forseti, en þá voru menn í þeirri stöðu að geta bent á að þjóðin hefði lent í áföllum sem ekki hafði verið gert ráð fyrir, þ.e. að mjög jákvæðar forsendur Seðlabankans hefðu ekki gengið eftir. Ef þær ganga eftir munum við borga þessa Icesave-skuldbindingu að fullu, ég segi ekki eins og að drekka vatn því það verður alltaf þungbært en við munum þá geta staðið við að greiða þessa skuldbindingu. Það sem hefur breyst er að nú er þetta ekki lengur bundið í tíma og við eigum alltaf að borga raunvexti, hvernig sem árar, og þetta getur orðið til þess að við Íslendingar náum okkur ekki á strik. Vextirnir geta orðið okkur svo þungbærir að þeir haldi niðri hagvextinum sem getur orðið slæmur þangað til vegna annarra skuldsetninga þjóðarinnar út af hruninu sem við glímum nú við.

Þegar lánið er orðið svona langt fara menn að líta á aðra þætti en við gerðum í sumar, sérstaklega raunvexti. Menn átta sig ekki alltaf á því hvað raunvextir eru í rauninni veigamikið atriði í öllum skuldum og eignum. Það mætti oft horfa mikið meira til þess að háir raunvextir geta verið mjög skaðlegir ef maður skuldar þá en þeir geta orðið mjög gagnlegir ef maður á kröfuna. Til gamans, frú forseti, ef Júdas eða afkomendur hans hefðu lagt þessa 30 silfurpeninga á ávöxtun sem hefði verið 1% umfram silfur, þ.e. að á hverju ári í 1980 ár hefði bæst við 1% silfurs, giska ég á og hef reiknað út reyndar að þessi sjóður sem var 100 grömm væri núna ígildi 360.000 tonna af silfri miðað við þann tíma. Ef við hefðum talað um 3% raunvexti væri sjóðurinn jafnþungur jörðinni og ef það væru komnir 4% raunvextir væri það þyngd sólkerfisins. Þetta segir okkur að hugmyndin um raunvexti fær eiginlega ekki staðist til lengri tíma. Mjög háir raunvextir, og þá er ég að tala um umfram hálft prósent, er nokkuð sem fær ekki staðist. Það skýrir kannski, frú forseti, þessar kreppur sem koma alltaf reglulega á 20, 30 ára fresti, hrun hér og þar í heiminum.

Þetta er útúrdúr en ég ætla rétt að fara í gegnum raunvexti. Það sem raunvextir hafa í för með sér er að ef þeir eru neikvæðir rýrna eignir og það er talað um helmingunartíma eigna, þ.e. þær skreppa saman. Ef menn sem eiga sparifé ná ekki raunvöxtum þá skreppur eignin saman. Þetta urðu menn varir við hérna á árunum 1950–1980. Þá voru hér stöðugt neikvæðir raunvextir, ekki miklir, það var ekkert voðalegt verðbólgubál en hægt og rólega fluttust allar eignir frá sparifjáreigendum yfir til skuldara, skuldararnir græddu en sparifjáreigendur töpuðu.

Sem dæmi má nefna að mínus 3% raunvextir helminga eignina á 23 árum. Maður sem átti andvirði tveggja húsa og lagði það inn á banka með mínus 3% raunvöxtum á bara eitt hús eftir 23 ár. Með sama hætti tvöfaldast eignin þegar raunvextir eru jákvæðir og er mjög háð því um hvaða vexti við erum að tala. Ef um er að ræða 0,5% raunvexti tvöfaldast eignin á 139 árum. Ef vextirnir eru hins vegar 3,5% tvöfaldast hún á 20 árum. Þ.e. maður sem lánar öðrum andvirði eins húss á sömu vöxtum og lífeyrissjóðirnir miða við, 3,5% raunvöxtum — eftir 20 ár á sá sem fékk lánið að borga tvö hús ný til baka. Ný hús, nota bene, menn þurfa að hafa það í huga. 5,55% raunvextir tvöfalda fjármagnið á 13 árum og 10% raunvextir, sem hafa jafnvel verið í gildi á Íslandi, tvöfalda fjármagnið á sjö árum. Ef einhver lánar öðrum andvirði nýs húss með 10% raunvöxtum fær hann til baka tvö ný hús eftir sjö ár, fjögur hús eftir 14 ár og átta hús eftir 21 ár.

Raunvextirnir hafa óskaplega mikið að segja og þess vegna horfa menn sem lána peninga og hafa vit á þessu alltaf á raunvextina. Það hafa breskir og hollenskir embættismenn örugglega gert þegar þeir ákváðu 5,55% vexti því að ekki voru það Íslendingarnir sem ákváðu það. Það held ég að sé alveg á tæru því þetta eru óskaplega háir vextir.

Eins og ég gat um í fyrri ræðu minni hafa verið tímabil í Bretlandi þar sem hefur verið verðhjöðnun og þá verða raunvextir náttúrlega mjög háir. En það hafa líka verið tímabil þar sem hefur verið verðbólga, 10, 15 og jafnvel 20% verðbólga á ári í Bretlandi. Þá mundu Íslendingar græða. Þetta er ein stærsta áhættan sem við stöndum frammi fyrir, hver þróun verðbólgu í Bretlandi verður og í evrulandinu líka en í minna mæli þó af því að við skuldum tvo þriðju í Bretlandi. Hver verður þróun verðbólgu í Bretlandi næstu tíu, fimmtán árin? Það skiptir meginmáli. Af hverju segi ég það? Vegna þess að við flytjum út fisk, ál og ferðaþjónustu til þess að borga af þessu láni. Ef það er verðbólga í Bretlandi, segjum 10%, hækkar verðið á fiskinum, álinu og ferðaþjónustunni væntanlega um 10% í pundum þannig að við þurfum að flytja út minni fisk. Við fáum fleiri pund fyrir fiskinn og þá er auðveldara að borga af láninu. Ef það er verðhjöðnun gerist hið gagnstæða, þá lækkar verðið á fiskinum og álinu í pundum.

Ef verðbólga í Bretlandi yrði t.d. 10% gæfu þessir 5,55% vextir mínus 4% raunvexti sem þýðir að eignin helmingaðist á 16 árum. Ef það yrði 5% verðbólga gæfi þetta 0,5% raunvexti, ef engin verðbólga yrði í Bretlandi yrðu þetta 5,6% vextir sem mundu tvöfalda eignina á 13 árum. Ef það yrði 4% verðhjöðnun í Bretlandi næstu sjö árin gæfi það 9,9% raunvexti sem tvöfaldaði eignina á sjö árum, frú forseti, einmitt á þeim sjö árum þegar við bíðum eftir að byrja að borga. Verðhjöðnun í Bretlandi upp á 4%, sem er reyndar ansi mikið, yrði gífurlega þungbær fyrir Íslendinga. Þetta verða menn að hafa í huga.

Hér var í morgun nokkur umræða um breytilega og fasta vexti. Það er rétt að fastir vextir til lengri tíma eru betri en breytilegir vextir, það er minni áhætta svo fremi sem þeir eru ekki óskaplega háir. 5,55% vextir eru svo háir vextir að það er mjög hæpið að breytilegir vextir á þeim tíma sem við erum að tala um nái þeim hæðum nokkurn tímann. Við erum jú að tala um að vaxtastig í heiminum núna er um 0–1% og sérstaklega fyrir góða skuldara eins og ríkisábyrgð eru þeir vextir mjög lágir. Í Bretlandi eru breytilegir vextir, ef menn kaupa sér íbúð geta menn fengið fasta vexti líka þar en vextir sem almenningur borgar fyrir íbúðalán í Bretlandi eru undir 5%. Þá eru vextirnir fastir í svona fimm ár, reyndar ekki lengur. Með því að hafa fasta vexti kaupir maður sér ákveðið öryggi en borgar líka fyrir það. Ég hugsa að í þessu dæmi sé ekki spurning að það borgi sig að hafa breytilega vexti frekar en svona óskaplega háa fasta vexti.

Ég trúi á vitræna umræðu og að menn hlusti á það sem er verið að gera. Hér er í umræðunum búið að fara í gegnum mjög mikla áhættu af þessu lagafrumvarpi sem um er að ræða. Menn hljóta að vera hugsi yfir því hvaða afleiðingar það hefur fyrir íslenska þjóð að skrifa upp á svona samning. Þess vegna vil ég skora á alla hv. þingmenn, sérstaklega stjórnarliða, að skoða hvort ekki mætti fara aftur út af örkinni og bjóða Bretum eitthvað annað, t.d. meiri tryggingu, að vextirnir yrðu aldrei hærri en 0,5% raunvextir. Við byðum þeim að við mundum borga en þó aldrei hærri raunvexti en 0,5%. Það skilja Bretar mjög vel, þeir þekkja verðtryggingu því hún er töluvert algeng í Bretlandi, og þá fá þeir öll sín pund og dálitla vexti ofan á. Ég hugsa að það sé ekki fráleitt að þeir muni fallast á slíkt því að þeir óttast nefnilega núna að það verði verðbólga í Bretlandi þótt það sé eitthvað sem ég gleddist yfir sem skuldari lánsins. Ég óttast hins vegar verðhjöðnun í Bretlandi sem þeir mundu gleðjast yfir ef hún er ekki allt of mikil. Til þess að finna milliveg þarna á milli ættu Íslendingar og Bretar að semja um að þetta lán verði eins og um er talað en þó yrðu aldrei hærri raunvextir í pundum en 0,5%. Það getur verið góður samningsgrundvöllur sem við ættum að bjóða Bretum og Hollendingum.

Hér hefur verið rætt um að allur þrýstingur á þetta mál sé algjörlega horfinn. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er farinn að sverja það af sér að einhver tengsl séu á milli áætlana hans og samþykktar Icesave-samninganna. Norðmenn eru líka búnir að sverja af sér að þeir hafi sett það skilyrði að kúga Íslendinga til þess að samþykkja Icesave og því er allur þrýstingur á málinu að mínu viti horfinn, frú forseti. Þess vegna gætum við núna í rólegheitunum sent þau skilaboð til Breta og Hollendinga að ef þeir fallist ekki á þessi skilyrði sem eru í gildandi lögum á Íslandi og þeir gætu meira að segja — ég hef ekki fengið svar við því enn þá hvort þeir hafi samþykkt eða hafnað þessum skilyrðum sem eru í gildandi lögum — ég sé ekki betur en þeir gætu bara sent bréf á morgun, Bretar og Hollendingar, annar hvor eða báðir, og sagt: Við föllumst á þessi skilyrði. Þar með væri ríkisábyrgðin komin í gildi, sú ríkisábyrgð sem við erum að tala um að eigi að breyta. Þetta eru gildandi lög frá Alþingi, frú forseti. Ég held að við ættum núna að fresta þessu máli, t.d. fram í apríl eða maí, og semja við Breta og Hollendinga um að taka upp t.d. 0,5% raunvexti. Það mundi örugglega hugnast þeim vel og við værum laus við þessa miklu áhættu sem felst í mögulegri verðhjöðnun í Bretlandi.

Þetta var um raunvexti. Ég ætla að nota restina af tíma mínum til að fara í gegnum stöðu Landsbankans sem hæstv. forsætisráðherra gerði að umtalsefni hér í gær og gerði lítið úr. Þannig er að kröfur á Landsbankann voru frystar í krónutölu miðað við 22. apríl sl. Það hefur í för með sér að það er búið að festa niður hlutfall á milli einstakra krafna og þær bera ekki vexti eða verðbætur eftir það, þ.e. það verða eftirstæðar kröfur sem aldrei verða greiddar. Áhættan í þessu felst í fyrsta lagi í því, og ég hef upplýsingar um það, að 91% af eignum Landsbankans eru í erlendri mynt en einungis 9% eru í innlendri mynt. Evran er langþyngst í því með tæplega 40%, pundið er með 30% og Bandaríkjadollar með 20%. Eignir Landsbankans eru að meginhluta til erlend mynt sem gerir það að verkum að þegar krónan fellur, eins og hún hefur gert frá 22. apríl, hækka eignir Landsbankans í krónum en skuldbindingin er föst í krónutölu þannig að hann getur alltaf borgað meira og meira af skuldbindingunni. Enginn skyldi þó halda að það sé gott. Ég hef mikið á móti því þegar menn segja: Ja, nú getur hann borgað 80%, 90% og svo 100%. Það er ekkert gott vegna þess að á hinum endanum hjá innlánstryggingarsjóði er þetta akkúrat öfugt. Hann er með kröfu á Landsbankann í krónum en skuldar í erlendri mynt þannig að þar blása skuldirnar út.

Þetta helst nokkurn veginn í hendur þannig að staðan batnar hvorki né versnar við að gengið falli þangað til gengið er komið í þá stöðu að Landsbankinn getur borgað 100% af kröfunni. Þá fara að gerast mjög slæmir hlutir, frú forseti. Það vantar ekki nema 5 eða 6% gengisfall ofan á frá deginum í dag. Við erum ekki að tala um að þetta gerist fyrir áramót, þetta gerist þegar Landsbankinn getur farið að gera upp kröfur sínar. Hann þarf að bíða eftir öllum málaferlunum, sennilega í þrjú til fimm ár, þangað til hann getur farið að greiða út. Á þeim tíma gæti krónan fallið um 5, 10 eða 15%. Ég hugsa meira að segja að flestir séu þeirrar skoðunar að hún muni gera það. Þá erum við komin í þá stöðu að Landsbankinn borgar 100% af forgangskröfum og svo fer hann að borga 5, 6 eða 10% af almennum kröfum. Það eru peningar sem fara þá út úr eignum Landsbankans til annarra en innlánstryggingarsjóðs og Breta og Hollendinga. Þetta er stóra áhættan varðandi að festa þetta í krónum, að Landsbankinn fari að borga almennar kröfur. Ekki að ég hafi neitt á móti almennum kröfum, alls ekki, en það sem gerist er að þeir peningar sem fara í almennar kröfur fara ekki í innlánstryggingarsjóð og ekki til þess að lækka skuldir innlánstryggingarsjóðs gagnvart Bretum og Hollendingum. Það er vandamálið.

Ég er langt í frá búinn með efni ræðu minnar, ég hélt að ég kæmist yfir meira. Ég ætlaði að tala um gildi sparnaðar fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðir o.s.frv. en verð víst að gera það í næstu ræðu. Ég bið því hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá.