138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans ágætu ræðu. Hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur verið einn af ötulustu talsmönnum þess að þennan samning megi ekki gera eins og hæstv. ríkisstjórn virðist ætla að gera, með því að keyra hann í gegn með dyggum stuðningi stjórnarmeirihlutans og hugsanlega einhverra fleiri þingmanna. Það er áhyggjuefni að lítið hefur verið hlustað á þær gagnrýnisraddir sem hafa komið fram um þetta nýja frumvarp. Það var jú tekið nokkuð tillit til gagnrýnisradda sem komu fram um það frumvarp sem var samþykkt um mánaðamótin ágúst/september en nú er hins vegar ekki hlustað. Nú á að keyra allt í gegn.

Mig langar að velta því upp við hv. þingmann hvað í ósköpunum geti legið að baki því að enn sé verið að pressa á þetta mál og ýta því í gegnum þingið þegar það liggur ljóst fyrir að ekki er neinn þrýstingur hvað það varðar að öðlast aðgang að lánsfé. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er búinn að lýsa því yfir að við höfum aðgang að lánsfé. Norski utanríkisráðherrann lýsti því yfir að frá 28. október hefði verið hægt að draga á hið norska lán og ef ég man rétt kom fram í fréttum um daginn að til stæði að gera það, held ég. Allt hefur þetta opnast fyrir okkur. Hvað er þá í veginum fyrir því að staldra við, vanda sig og gera betur? Hver er hættan? Hver er hótunin? Ég hef velt þessu mikið fyrir mér. Eitt vil ég að nefna. Ég ætla ekki að leggja orð í munn þingmannsins en ég velti fyrir mér hvort það geti verið hótun frá Evrópusambandinu um að við komumst ekki í þann klúbb sem óskað er eftir eða hvort það geti verið hræðsla ríkisstjórnarinnar og stjórnarmeirihlutans við að (Forseti hringir.) nú er farinn af stað undirskriftalisti til þess að mótmæla þessu. Getur verið að þess vegna eigi nú að keyra þetta í gegn?