138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Vilji almennings á Íslandi var einmitt það sem ég átti eftir að tala um í ræðu minni. Þetta voru góðar spurningar hjá hv. þingmanni. Mér finnst að stjórnarliðar þurfi að velta vel fyrir sér hvers vegna verið er að keyra þetta svona í gegn þrátt fyrir allar þær miklu viðvaranir sem koma fram í ræðum hverri á fætur annarri og fjölmörg ný atriði sem koma upp, ég segi ekki daglega en í það minnsta vikulega.

Ég hugsa að þetta sé í fyrsta lagi ákveðin nauðhyggja. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn var búinn að kúga t.d. hæstv. fjármálaráðherra. Honum var bara sagt að ef hann ekki samþykkti þetta gætu þeir ekki haldið áfram. Svona var málið kúgað í gegn og hann er enn þá haldinn þessari nauðhyggju, að þetta sé enn þá í gildi og megi í rauninni ekki bakka út úr því, út af stolti. Hins vegar hef ég grun um að margir sem vilja fara í Evrópusambandið viti að Bretar og Hollendingar þurfa að samþykkja aðild okkar að Evrópusambandinu og þeir gera það ekki ef þeir eru ekki ánægðir með samninginn sem við gerum. Ég hugsa að það vegi ansi þungt.

Þá er það spurningin sem hinn almenni Íslendingur verður að spyrja sig: Hvað erum við eiginlega að borga mikið fyrir þessa umsókn um aðild að ESB? Ekki einungis er fullt af fólki bundið við að sækja um heldur er líka verið að borga Icesave fyrir að sækja um, sem eru fleiri hundruð milljarða.