138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:11]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessar spurningar eru efni í heila ræðu, ef ekki tvær, en ég skal reyna að fara í gegnum þetta.

Það er ekki spurning að margt af því sem ég greindi í vetur er orðið miklu skýrara, sérstaklega eignir Landsbankans. Það er orðið mikið skýrara hvaða eignir hann á, í hvaða myntum þær eru o.s.frv., þannig að þetta er allt að skýrast.

Áhættan sem ég sá í vetur var m.a. lítill hagvöxtur á Íslandi sem gæti t.d. leitt af mikilli skuldsetningu. Ef hér yrði 0,5% hagvöxtur á hverju ári eða jafnvel 0% hagvöxtur værum við ekki í stakk búin til að borga yfirleitt nokkurn skapaðan hlut. Það mundi leiða til fólksflótta o.s.frv. og við gætum ekki borgað neitt. Þetta var einn af þeim áhættuþáttum sem fyrirvarar Alþingis í sumar áttu einmitt að taka á. Ef svo ólíklega skyldi vilja til að neyðarlögin yrðu dæmd ógild væri það gífurleg áhætta sem fyrirvararnir í sumar tóku á líka. Ef verðhjöðnun yrði í Bretlandi, sem er líka áhætta sem ég fór í gegnum í ræðu minni, tóku fyrirvararnir í sumar á því líka.

Frumvarpið sem við ræðum núna tekur ekki á neinu af þessu. Það er meira að segja svo hættulegt að ef það yrði 1% hagvöxtur, 0,5% hagvöxtur eða enginn hagvöxtur og við gætum ekki borgað neitt ættum við samt að borga vextina í erlendum gjaldeyri. Við yrðum að klóra saman erlendan gjaldeyri til þess að borga Bretum og Hollendingum þótt við gætum það ekki. Það getur verið mjög hættuleg staða og því skora ég á alla þingmenn að fara í gegnum það sérstaklega og hugleiða hvort ekki sé ástæða til þess að semja upp á nýtt.