138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:13]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir svar hv. þm. Péturs Blöndals. Ég geri mér vel grein fyrir að þessar spurningar sem ég spyr eru viðamiklar og örugglega efni, eins og þingmaðurinn sagði, í eina ef ekki tvær ræður í viðbót. Ég held þó það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessa efnahagslegu fyrirvara.

Í vinnunni í sumar verð ég að viðurkenna að ég skildi að gagnvart þjóðarstoltinu og rauninni okkar stöðu sem sjálfstæðrar og fullvalda þjóðar skipti það máli að við héldum því fram að okkur bæri ekki lagaleg skylda til þess að borga þetta og við værum mjög ósátt við að fá ekki að láta á þetta reyna fyrir dómstólum. Hins vegar getum við varla lifað á stoltinu einu og þess vegna mat ég það svo fyrir mig persónulega að það væru efnahagslegu fyrirvararnir sem ég teldi langmikilvægasta af þeim fyrirvörum sem voru samþykktir hér í sumar um það hvernig við eigum að geta borgað þetta.

Þess vegna varð ég fyrir miklu áfalli þegar það fór að leka út að verið væri að gera mjög alvarlegar athugasemdir við þessa fyrirvara, enda reyndist það síðan vera raunin þegar frumvarpið kom fram að það var búið að útþynna eða útvatna þá mjög mikið. Tilfinningin eftir að hafa lesið það sem samninganefndin og ríkisstjórnin samþykktu í þessum viðaukasamningum var að menn hefðu ekki skilið kjarnann í þessum fyrirvörum, til hvers við vorum að tengja þetta við hagvöxtinn. Eins og ég benti á hef ég hvergi annars staðar séð svona áhættumat hjá ríkisstjórninni eins og hv. þingmaður hefur gert fyrir sig persónulega og eytt miklum tíma í, þar sem farið er nákvæmlega í gegnum hvaða áhættuþættir þarna eru og hvernig þessir efnahagslegu fyrirvarar geta varið okkur gegn (Forseti hringir.) þessum áhættum.