138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er einmitt athyglisvert. Ég man eftir því að þegar tekin var ákvörðun um að fara í Kárahnjúkavirkjun lá fyrir mjög nákvæmt áhættumat, enda var verið að fara út í hundrað milljarða fjárfestingu, sem er mikið. Hér erum við að tala um þúsund milljarða fjárfestingu og það liggur ekki fyrir neitt áhættumat. Ég skora á hæstv. ríkisstjórn og stjórnarflokkana sem leggja þetta frumvarp fram að vinna að slíku áhættumati. Ég skal taka þátt í þeirri vinnu. Það er reyndar hluti af því í nefndaráliti 4. minni hluta þar sem er farið í gegnum áhættuna af gengisfrystingunni eða krónufrystingunni. Þar er reynt að meta áhættuna af því og það kemur í ljós að ef gengið fellur eitthvað, t.d. 10% í viðbót á næstu þremur árum förum við að sjá mjög slæma stöðu. Líka ef neyðarlögin halda ekki.

Svona þyrfti að fara í gegnum allar þessar áhættur, reyna að úthugsa fleiri og sjá hvernig þær virka. Ég reikna ekki með því að breskir og hollenskir samningamenn séu einhver illmenni. Ef þeim hefðu verið sýndir þessir útreikningar og þetta hefði verið lagt svona upp fyrir þá, að verið væri að tryggja íslenska þjóð fyrir því að lenda ekki í þeirri stöðu að geta ekki borgað, hefðu þeir örugglega fallist á fyrirvarana. Þeir hafa reyndar enn þá tíma til þess. Ég veit ekki til þess að þeir hafi formlega hafnað þessum fyrirvörum og þeir hafa heldur ekki samþykkt þá. Þetta eru lög sem eru í gildi frá Alþingi Íslendinga, lög sem gilda hér á Íslandi og ef þeir sæju hvað þetta eru sanngjarnir fyrirvarar gætu þeir í rauninni tilkynnt á morgun með einu litlu bréfi að þeir fallist á fyrirvarana. Þá væri ríkisábyrgðin komin í gildi, Icesave-málið leyst og við gætum snúið okkur að öðrum málum eins og t.d. fjárlagagerð.