138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:18]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Nú er svo komið að ég er næstur á mælendaskrá í einu stærsta máli sem við höfum rætt í þingsölum í sögu lýðveldisins og staðreyndin er sú að hvorki formaður né varaformaður fjárlaganefndar, sem bera ábyrgð á þessu máli, eru í húsinu. Þeir voru heldur ekki í húsinu þegar hv. þingmaður Pétur H. Blöndal flutti sína ágætu ræðu.

Það er mjög alvarlegt þegar þeir aðilar sem bera ábyrgð á þessu máli sem við ræðum hér fyrir hönd fjárlaganefndar eru ekki viðstaddir þá umræðu. Ég krefst þess að fundi verði frestað þangað til hv. formaður og varaformaður fjárlaganefndar eru komnir hingað í hús, því við höfum bent á marga nýja fleti í þessu máli sem er nauðsynlegt að þeir hlusti á sem bera ábyrgð á málinu. Það er fyrir neðan virðingu þingsins og hv. fjárlaganefndar ef forustumenn þeirrar nefndar eru ekki viðstaddir þessa umræðu. Því fer ég fram á það, frú forseti, að áður en ég tek til máls geri frú forseti hlé á þessum þingfundi þangað til hv. þingmenn eru komnir í þingsalinn.