138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir með félögum mínum í stjórnarandstöðunni, það er auðvitað enginn bragur á þessari umræðu. Við erum vænd af hæstv. ráðherrum og hv. þingmönnum um að stunda málþóf þegar við nýtum okkar mjög svo takmarkaða rétt til þess að tala um þetta alvarlega mál við 2. umræðu. Ég hef rætt þetta mál í 40 mínútur og er komin aftur á mælendaskrá þannig að mér er mikið niðri fyrir.

Í gær kallaði ég eftir ýmsum upplýsingum í ræðu minni. Ég hafði spurningar til hæstv. utanríkisráðherra, hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra var í salnum en hann svaraði ekki fyrirspurnum mínum, hæstv. utanríkis- og forsætisráðherra voru ekki neins staðar sjáanlegir og því síður svöruðu þeir spurningum mínum. Ég vil því biðja frú forseta um að láta kalla eftir því hvort þeirra sé að vænta hingað í húsið og ef ekki legg ég til að við gerum hlé á þessari umræðu þangað til við erum farin að tala fyrir eyrum (Forseti hringir.) stjórnarliða og getum vænst þess að fá einhver viðbrögð við því sem við erum að segja.