138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:34]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég hef ekki lent í þessari aðstöðu áður á vettvangi þingsins. Hæstv. forseta er það í sjálfsvald sett að fresta þessum fundi og það þarf ekki að slíta fundinum heldur má fresta honum þangað til að háttvirtir ábyrgðarmenn þessa frumvarps, formaður og varaformaður fjárlaganefndar, sem eru ekki staddir í þinghúsinu, koma hingað. Og ég spyr frú forseta hvort hún ætli að verða við þessu, eða hvort ég þurfi að flytja ræðu mína að þeim fjarstöddum, þar sem þeir heyra ekki hvað ég hef fram að færa í þessu máli.

(Forseti (RR): Hv. þingmaður. Forseti hefur komið þeim boðum áleiðis til hv. þingmanna að þeir komi í þingsal. Forseti Alþingis hefur hins vegar ekki boðvald yfir þingmönnum. Forseti stýrir hér fundi og gerir það samkvæmt þeirri dagskrá sem fyrir liggur. Óskar hv. þingmaður eftir að halda áfram með ræðu sína?)

Ég óska eftir því, frú forseti, að gert verði hlé á þessum fundi þangað til hv. þingmenn sem eru hér í nágrenninu, koma hingað til þess að skiptast á skoðunum við okkur. Það er með öllu óásættanlegt og það er verið að brjóta á réttindum mínum sem þingmanni að ábyrgðarmenn þessa frumvarps sitji ekki í salnum og hlusti á það sem ég hef fram að færa. Og ef frú forseti verður ekki við þessum tilmælum lít ég svo á að það sé verið að brjóta á rétti mínum sem alþingismanni. Ég vil fá svör við þessu.

(Forseti (RR): Forseti mun ekki slíta fundi, hv. þingmaður, þar til þeir þingmenn sem nefndir hafa verið eru komnir í sal. Forseti heldur áfram með þá dagskrá fundarins sem fyrir liggur og í ræðustól stendur hv. 2. þm. Norðaust., Birkir Jón Jónsson, og hefur 20 mínútur.)

Ég geri mér grein fyrir því. Það er mjög dapurlegt að verða vitni að þessu, að forseti þingsins skuli ekki fresta fundi þangað til hv. ábyrgðarmenn þessa frumvarps koma í salinn. Og ég spyr: Til hvers stöndum við hér? Við hverja eigum við orðræðu? Þetta er náttúrlega algerlega með ólíkindum og vægast sagt dapurlegt.

Á þær athugasemdir sem ég ætlaði að koma með og spurningar sem ég ætlaði að spyrja hv. forustumenn fjárlaganefndar um verður ekki hlustað. Ég spyr því frú forseta hvort hún telji ekki ástæðu til þess að formenn þingflokka hitti forseta þingsins og forsætisnefnd þingsins komi líka saman til þess að ræða þetta vinnulag, því þetta er fyrir neðan virðingu þingsins og það er brot á réttindum mínum að ég þurfi að standa hér í ræðustól Alþingis og að á mig sé ekki hlustað. Að þeir sem bera ábyrgð á málinu séu ekki viðstaddir og séu ekki hér í húsinu. Og dæmi svo hver fyrir sig.

Ég skal samt halda áfram með mál mitt en það leiðir af sjálfu sér að ég verð að setja mig aftur á mælendaskrá, þ.e. ef umræddir hv. þingmenn munu koma í hús. En að mínu mati er greinilegt að réttindi okkar sem erum að reyna að koma málflutningi okkar til skila eru fótum troðin.

Það hefur komið fram, frú forseti, að mikil vafi leikur á því að ef við samþykkjum þetta frumvarp eins og það liggur fyrir getum við mögulega verið að brjóta stjórnarskrána sem þingmenn hafa svarið eið að. Nú hef ég fengið þær fréttir í einu hliðarherberginu í þinginu að eftir að við í minni hlutanum höfum ítrekað bent á þetta hefur formaður fjárlaganefndar, sem er reyndar ekki viðstaddur þessa umræðu, ákveðið að senda fjórum lögfræðingum þetta álitamál til skoðunar og að það eigi að skoða frekar. Við höfum þó náð því fram hér á þessum vettvangi úr ræðustóli Alþingis að þetta mál verði kannað sérstaklega. Það hefði verið mjög auðvelt að kanna þetta á vettvangi fjárlaganefndar áður en málið var tekið út til 2. umræðu. En eins og við vitum öll var málið tekið út með þeim hætti að nær engir gestir voru kallaðir fyrir nefndina og þeim beiðnum sem minni hlutinn í þinginu hafði gagnvart heimsóknum einstakra aðila var hafnað.

Í öðru lagi hefur það komið fram eftir að málið var tekið út úr fjárlaganefnd, að það er mikil mismunur á því hvernig farið er með innlánstryggingarsjóði, annars vegar þann íslenska og hins vegar þá bresku og hollensku. Daniel Gros hefur bent á að Bretar láni innlánstryggingarsjóði sínum fjármagn á 1,5% vöxtum, en okkur eru lánaðir þessir fjármunir á 5,55% vöxtum. Það er nú enginn smámunur á því. Hann hefur reiknað það út og hæstv. fjármálaráðherra hefur bara sagt að umræddur maður sem er mikill fræðimaður og vel að sér í þessum málum hafi farið með fleipur, en Daniel Gros hefur reiknað það þannig að það munar 185 milljörðum kr. ef við hefðum fengið sambærilega vexti og Bretar eru að lána sínum innlánstryggingarsjóði.

Hvað þýðir þetta? Þetta eru skattahækkanir á almenning og fyrirtæki sem gert er ráð fyrir á næsta ári í ein fjögur ár, hvorki meira né minna. Við höfum ekki fengið að ræða þetta á vettvangi fjárlaganefndar og í ljósi umfangs málsins mundi nú alveg vera efni til þess að halda eins og einn fund til þess að fara yfir þetta mál.

Í þriðja lagi hefur það komið fram hjá hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni að það geti verið byrlegra fyrir Ísland að notast við breytilega vexti í stað fastra vaxta í ljósi þess að á næstu tveimur árum munu útgreiðslur úr Landsbankanum að mestu leyti koma. Þannig mætti mögulega spara ríkissjóði hátt í 90 milljarða kr.

Ég sit í hv. efnahags- og skattanefnd ásamt hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni. Þar var málið rifið út, þar var ekki hægt að skoða þetta álitaefni þrátt fyrir að um sé að ræða allt að 90 milljarða sem mögulega væri hægt að spara íslenskri þjóð, íslenskum heimilum, með því að skoða málið aðeins betur. En það má ekkert skoða þetta mál betur. Ríkisstjórnin er búin að komast að ákvörðun og þetta mál skal keyrt í gegn, án þess að kallaðir séu fyrir gestir í efnahags- og skattanefnd og fjárlaganefnd, þrátt fyrir að hér sé um algjörlega nýtt mál að ræða, sem hefur breyst í grundvallaratriðum frá því Alþingi Íslendinga samþykkti Icesave-lögin 2. september sl.

Í fjórða lagi hefur það komið fram að menn efast um það gagnvart stjórnarskránni í ljósi þess að það framsal að dómsvaldið sem þessi löggjöf eða þetta frumvarp leiðir af sé á sér enga hliðstæðu, þ.e. að EFTA-dómstóllinn, erlendur dómstól sé orðinn íslenskum dómstólum æðri, að það þurfi staðfestingu frá erlendum dómstólum þegar kemur að því að leysa úr ágreiningsmálum sem hér rísa. Það er nú engin smáræðisbreyting á réttarfari hér á landi. Það var ekki kveðið á um það í því frumvarpi sem við samþykktum hér 2. september sl. og það hefur ekki verið skoðað í ljósi þess að þetta á engin fordæmi, hvort þessi gjörningur sé einfaldlega í lagi. Það má ekkert ræða þessi mál. Það má ekki taka þessi mál fyrir í efnahags- og skattanefnd eða fjárlaganefnd.

Greinilega hefur forsætisnefnd Alþingis líka tekið þá ákvörðun að hv. þingmenn, formaður og varaformaður nefndarinnar, þurfi ekki einu sinni að vera viðstaddir umræðuna til þess að svara þeim álitaefnum sem við höfum beint hér fram.

Maður fer að velta fyrir sér lýðræðinu og hvort það eigi ekki að vera hluti af starfsskyldu þingmanna, sérstaklega þeirra sem bera fram heilu þingmálin, að vera a.m.k. viðstaddir þá umræðu sem hér fer fram vegna þess að óumdeilanlega höfum við komið fram með mörg álitamál sem við þurfum að útkljá í hv. fjárlaganefnd í samráði við helstu sérfræðinga okkar á sviði lögspeki og hagfræði.

Frú forseti. Það að vera með lítinn gjaldmiðil sem þjóð og skulda gríðarlega fjármuni í erlendri mynt, eins og mælt er fyrir í þessu frumvarpi, getur haft varanleg áhrif á gjaldmiðil okkar til lengri tíma litið. Þetta verða mikil dómínó-áhrif þegar við þurfum sem þjóð að greiða árlega tugi milljarða í vexti af erlendum lánum. Þetta hefur allt gríðarlega mikil áhrif til veikingar íslensku krónunnar. Við getum lent í vítahring þess að krónan verður viðvarandi veik og erlendar skuldir hækki og mögulega getur þessi staða leitt til þess að íslenskt samfélag, íslenskt þjóðfélag, verði í tugi ára í skuldafangelsi.

Við höfum spurt af hverju í ósköpunum menn hafi ekki reynt til fulls að hafa þessa skuldsetningu í krónum, sem hefði breytt í grundvallaratriðum þeirri stöðu sem við erum í. Ég vil spyrja frú forseta, af því að ég á enn átta og hálfa mínútu eftir af ræðu minni, hvort hv. þm. Guðbjartur Hannesson, formaður fjárlaganefndar, og hv. varaformaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason séu komnir í hús.

(Forseti (RR): Forseti upplýsir hv. þingmann um að samkvæmt skrá eru umræddir þingmenn ekki komnir í hús.)

Og stendur frú forseti við þá ákvörðun sína að ég eigi að klára mína 20 mínútna löngu ræðu án þess að forustumenn og þeir sem hafa lagt fram þetta frumvarp hér á Alþingi séu í salnum og hlusti á ræðuna? Frú forseti stendur við þá ákvörðun sína um að fresta ekki þessum fundi til þess að ég geti spurt hv. þingmenn út úr þeim málum sem ég hef verið að reifa hér.

(Forseti (RR): Þingmaðurinn hefur orðið en forseti hyggst ekki fresta fundi.)

Frú forseti. Maður fer að velta fyrir sér verklaginu á Alþingi og af hverju við erum kannski komin í þá stöðu sem raun ber vitni. Hér á vettvangi Alþingis hafa verið gerð mikil mistök síðasta árið vegna þess að það hefur verið fljótaskrift á ýmissi löggjöf á vettvangi þingsins. Það hafa verið gerð mörg mistök vegna þess að við höfum verið að semja lög yfir nótt í mikilli tímaþröng og ég held að það hafi líka verið gerð mörg mistök á vettvangi þingsins í lagasetningu vegna þess að ríkjandi stjórnvöld hafa ekki viljað hlusta á minni hlutann eða marga aðila úti í samfélaginu. Það sem er að gerast hér er kannski ein versta birtingarmynd þess, því að þó að maður viti að hv. þingmenn séu kannski lítið að hlusta þá hafa þeir samt sem áður oftar en ekki setið í stólum sínum enda ber þeim skylda til þess. En nú hefur forseti sem sagt staðfest það að ég eigi hér sem þingmaður á Alþingi Íslendinga að flytja athugasemdir við þingmál sem aðallega tveir hv. þingmenn bera höfuðábyrgð á í þessari umræðu, hv. formaður fjárlaganefndar Guðbjartur Hannesson og hv. varaformaður fjárlaganefndar Björn Valur Gíslason, og þeir þurfa ekki einu sinni að vera viðstaddir umræðuna, þeir þurfa ekki einu sinni að vera í húsinu. Þetta er dapurlegt og ég held að það væri rétt að forsætisnefnd þingsins færi yfir þetta því að sjálfsögðu er það í raun og veru niðurlægjandi að velta hér upp miklum álitaefnum í þessu gríðarlega stóra máli og maður veit það og hefur það áþreifanlega sannað að þeir þingmenn sem maður er að beina orðum sínum að eru ekki viðstaddir umræðuna.

Frú forseti. Allt þetta mál, saga þessa máls er sorgarsaga. Okkur lánaðist á sumarþingi að ná þverpólitískri samvinnu í því að breyta því hrikalega máli sem barst inn í sali þingsins á vormánuðum eða sumarmánuðum. Það virðist ekki ganga núna. Hv. stjórnarliðar hafa greinilega flestir ákveðið að hlíta þeim samningum sem ríkisstjórnin hefur gert. Þetta eru slæmir samningar og við í minni hlutanum og við framsóknarmenn höfum talað fyrir því á undangengnum mánuðum að það væri mikilvægt að í þessu máli kæmi þjóðin fram sem ein heild. Það voru gríðarleg mistök sem voru gerð þegar minnihlutastjórnin skipaði viðræðunefndina í febrúarmánuði. Þá hefði stjórninni verið í lófa lagið að kalla til fulltrúa minnihlutaflokkanna á vettvangi þingsins og óska eftir því að þeir mundu tilnefna sérfræðinga sína í þá viðræðunefnd. Það var ekki gert og flestir voru sammála um það á sumarþinginu að það hefðu verið afdrifarík mistök að stjórnvöld sem hefðu svona nauman meiri hluta hefðu ekki leitað til annarra stjórnmálaflokka til þess að styrkja viðræðunefndina þannig að við kæmum til þessara viðræðna sem ein heild, íslenska þjóðin, en það var ekki gert í febrúarmánuði.

Að afloknu þessu þverpólitíska samráði hér í allt sumar og að afloknu því að við samþykktum lög 28. ágúst fékk ríkisstjórnin annað tækifæri til þess að senda út viðræðunefnd og hafa samband við minnihlutaflokkana á þinginu og óska eftir því að þeir kæmu að þessari vinnu þannig við mundum mæta Bretum og Hollendingum sem ein þjóð og allir stjórnmálaflokkar, fulltrúar fólksins í landinu, mundu koma að þessari mikilvægu ákvarðanatöku, en það var ekki gert. Ég held að það sýni sig nú hver viðleitnin er gagnvart samstarfi og samvinnu á Alþingi Íslendinga, viðleitnin er engin, því miður.

Þar sem ég stend hér er enginn stjórnarliði í salnum, þeir eru væntanlega flestir að fylgjast með þessari ræðu minni í hliðarherbergjum eða á skrifstofum sínum en sárt þykir mér að vita að þeir aðilar sem bera höfuðábyrgð á framlagningu þessa máls við 2. umr., hv. þm. Guðbjartur Hannesson og hv. þm. Björn Valur Gíslason, hafi ekki setið hér og hlustað á þær nýju upplýsingar sem hafa komið fram í umræðunni. Hv. þingmenn Samfylkingarinnar tala reyndar um að ekkert sé nýtt í þessari umræðu. Ég held að þeir hinir sömu þingmenn sem tala um slíkt hafi ekki verið að hlusta á þær ræður og það innlegg sem við höfum mörg hver komið fram með í umræðunni.

Nú velti ég því fyrir mér um leið og ég óska eftir því að frú forseti setji mig aftur á mælendaskrá hvort ég muni liggja undir því ámæli þegar ég fer upp í þriðja skipti og spyr hv. formann og varaformann fjárlaganefndar út í þau atriði sem mér finnast vera dálítið óskýr í þessu, hvort það verði þá talað um það á bloggsíðum og í fréttum að ég sé með málþóf. (REÁ: Örugglega.) Örugglega, segir hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, og ég á alveg von á því. Ég er dapur þegar ég lýk þessari ræðu sem forustumenn fjárlaganefndar hafa ekki hlustað á og frú forseti þingsins hefur ákveðið að sé í lagi. Hæstv. forseta hefði verið í lófa lagið að fresta þessari umræðu þangað til hv. þingmenn hefðu komið í salinn. Ég veit ekki hver er næstur á mælendaskrá, hvert næsta fórnarlamb þessarar umræðu er en sá hv. þingmaður mun þurfa að hefja upp raust sína hér án þess að forustumenn fjárlaganefndar sem ber ábyrgð á málinu hlusti á. (REÁ: Hann er fjárlaganefndarmaður.) Það er fjárlaganefndarmaður og því á ég á von á því og ég hvet frú forseta til þess að fresta þessum fundi þangað til hv. þingmenn eru komnir til umræðunnar því að það er niðurlægjandi, ekki bara fyrir þá þingmenn sem í hlut eiga, hvort sem það er hv. þm. Pétur Blöndal eða sá sem hér stendur eða hv. þm. Ásbjörn Óttarsson sem mun koma hér á eftir heldur er þetta fyrir neðan virðingu þingsins. Það er fyrir neðan virðingu þeirra þingmanna sem taka þátt í þessari umræðu. Ég hvet frú forseta til þess að huga vandlega að þessu máli (Forseti hringir.) og skoða sinn gang.