138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu hans sem ég tel þó að hefði getað orðið mun efnismeiri ef hann hefði ekki þurft að verja helmingi tímans í að kalla eftir viðveru fjárlaganefndarmanna. Nú streyma stjórnarliðar hins vegar í salinn sem aldrei fyrr en þó ekki þeir hv. þingmenn sem þingmaðurinn kallaði eftir.

Það hefur mikið verið um það talað og hæstv. forsætisráðherra var afar viðkvæmur fyrir því að í þessari umræðu væri verið að brigsla fólki um landráð — orð sem ég er að nota hér í fyrsta sinn í þessum stól, þannig að það liggi fyrir — og að við séum að væna fólk um að hafa ekki gætt hagsmuna Íslands af fullum krafti.

Ég hef kallað mikið eftir gögnum, fundargerðum, og vil fá að vita hvernig fyrirvararnir voru kynntir. Ég ætla aðeins að leyfa mér að lesa upp úr þeirri einu fundargerð sem hér hefur verið lögð fram sem gagn í málinu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundinum daginn eftir byrjaði RA á því að fara yfir stöðu málsins á Íslandi og pólitíska afgreiðslu þess. Lagði hún áherslu á hvað málið hefði verið viðkvæmt pólitískt og að stjórnvöld hefðu lagt sig mjög fram um að fá lögin um ríkisábyrgðina samþykkt. Hefði það verið tvísýnt og í þeim tilgangi að tryggja það hefði verið nauðsynlegt að fallast á þá fyrirvara og skilyrði sem sett voru í lögunum. Í þessum efnum hefðu Alþingi og fjárlaganefnd haft mikið að segja og stýrt þróun málsins.“

Þetta er úr fundargerð aðstoðarmanns fjármálaráðherra, Indriða H. Þorlákssonar, frá fundi 1. og 2. september með Bretum og Hollendingum og nú vil ég spyrja hv. þingmann: Finnst þingmanninum að þarna sé verið að kynna þá mikilvægu fyrirvara sem Alþingi samþykkti hér í haust af fullum krafti? Finnst þingmanninum eins og þarna sé verið að beita öllum þeim sannfæringarkrafti sem hægt er til þess að fá viðsemjendur okkar til þess að gera eins og lögin sögðu að ætti að gera, staðfesta eða synja þessum fyrirvörum?