138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:57]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Nei, eins og þetta hljómaði fannst mér ekki vera mikill sannfæringarkraftur í þessari fundargerð eða í þessum tilvitnuðu orðum sem leiðir bara af því sem ég sagði áðan, að mér finnst það óskiljanlegt að stjórnarflokkarnir skyldu ekki hafa leitað til minnihlutaflokkanna á þinginu þegar tilnefna átti í viðræðunefnd númer tvö. Við höfum á að skipa sérfræðingum rétt eins og stjórnarflokkarnir hafa og það hefði kannski orðið önnur útkoma út úr þeim viðræðum ef nefndin hefði verið skipuð á annan hátt.

Við þekkjum öll hver niðurstaða fyrri samninganefndar var, gjörsamlega óviðunandi, en því miður er það svo að sannfæringarkrafturinn er ekki meiri en raun ber vitni. Eftir að hafa skoðað þetta mál betur og skoðað öll þau álitamál sem upp hafa komið átti ég í rauninni von á því að meiri efasemdarradda færi að gæta hjá þingmönnum stjórnarliðsins, sérstaklega í röðum Vinstri grænna. En það virðist gjörsamlega vera búið að ákveða fyrir fram þessa niðurstöðu. Það marka ég af því að okkur var lítið svigrúm gefið, ekkert svigrúm gefið í efnahags- og skattanefnd til þess að fjalla efnislega um málið, til þess að kalla gesti á fundi nefndarinnar. Það var ekkert skoðað eða farið yfir álit þeirra fjögurra minni hluta efnahags- og skattanefndar og við sáum hvernig verklagið var í fjárlaganefnd. Málið var bara rifið út, það voru ekki teknar fyrir óskir um gesti. Menn eru greinilega búnir að ætla sér niðurstöðuna fyrir fram í þessu máli, alveg sama hvað við leggjum til málanna hér, alveg sama hvaða athugasemdir við leggjum fram. Það er náttúrlega dapurlegt að taka þátt í slíkri umræðu.