138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:12]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þekkt úr sálfræðinni að þegar menn lenda í einhverjum vanda sem þeir ómögulega geta leyst, búa þeir sér til annan veruleika. Þetta var kallað í Þýskalandi í lok stríðsins biðin eftir „Wunderwaffe“ og mér finnst stjórnarliðar vera farnir að hegða sér svipað. Þeir bara hreinlega sleppa umræðunni, þeir sleppa henni af því að þeir þola ekki að heyra raunveruleikann. Þeir vita að þeir neyðast til að samþykkja þetta og þeir geta ekki horfst í augu við raunveruleikann og taka ekki þátt í umræðunni.

Ég vil líka spyrja hv. þingmann sem hefur reynslu af fjárlagagerð. Hvernig líst honum á stöðu fjárlaganna einmitt núna, og á meðan erum við að ræða hér mál sem ekki liggur neitt sérstaklega mikið á, hvernig líst honum á tekjuhliðina o.s.frv. í fjárlögunum?