138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja að hafi ég sagt eitthvað óviðunandi áðan, þá biðst ég innilegrar afsökunar.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Þetta atriði var aldrei rætt í fjárlaganefnd. Það atriði sem hv. þingmaður bendir á var aldrei skoðað. Það hefur komið fram ábending frá Daniel Gros sem situr í bankaráði Seðlabankans að þetta gæti munað allt að 180 milljörðum. En ég hef ekki haft nein tök á því að kynna mér þetta mál af því það var aldrei rætt í fjárlaganefnd. Það hefði náttúrlega verið, eins og ég kom réttilega inn á í máli mínu áðan, mjög æskilegt að fjárlaganefnd hefði skoðað þá hluti sem komu þarna fram. Á hverjum degi eru nefnilega alltaf að koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli eins og hv. þingmaður nefnir frá Daniel Gros hvað varðar jafnræðisregluna. Ég vil líka segja þessu aðeins til viðbótar að það er nefnilega ágreiningur um Evróputilskipunina. Hann byggir m.a. á því að það sé ekki ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum vegna þess að það stenst ekki jafnræðisregluna hjá Evrópusambandinu. Það er ekki sama hvaða ríki maður er með, hvað maður er með stóra banka eða lítinn banka eða sterkt ríki eða veikt ríki. Þess vegna hafa menn haldið því fram að ríkisábyrgð á innstæðutryggingarsjóðnum standist ekki þessa jafnræðisreglu Evrópusambandsins. Það er nýr vinkill í málinu.

Síðast en ekki síst hefði verið mjög mikilvægt — ég er mjög hryggur yfir því að hv. fjárlaganefnd hafi ekki gefið sér þann tíma sem hún þurfti til að fara yfir öll þessi gögn — að við ræddum þessa frystingu á (Forseti hringir.) kröfunum hjá innstæðutryggingarsjóðnum 22. apríl, það var aldrei rætt í sumar í allri þeirri vinnu.