138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:44]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að það væri náttúrlega mjög skynsamlegt að menn færu aftur í slíka vinnu og skoðuðu hvort það hefði verið skynsamlegra fyrir okkur að fá breytilega vexti. Ég minni á að í morgun fór hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson mjög efnislega í gegnum þetta mál og ég saknaði þess að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra hafi ekki farið í andsvar við hann til að menn tækju alvöruumræðu um þetta. En auðvitað hefði átt að skoða þessa hluti í fjárlaganefnd, alveg klárlega. Það er mjög dapurlegt að það skyldi ekki hafa verið gert, að við skyldum ekki hafa skoðað alla vinkla og skoðað ofan í kjölinn allar þær hættur sem leynast í málinu.

Ég minni á að þegar samningarnir voru lagðir fram 5. júní var það mjög mikið gagnrýnt af t.d. Indefence-hópnum að menn gerðu ekki áætlanir um greiðsluplan, hvernig menn ætluðu að greiða þetta, hvernig menn ætla að skaffa gjaldeyri fyrir þessu o.s.frv. (Forseti hringir.) Þetta er það sem maður er lafandi hræddur við.