138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:52]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í athyglisverðri ræðu hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar vék hann m.a. að vinnubrögðum og málsmeðferð í hv. fjárlaganefnd í sambandi við afgreiðslu þessa máls. Ég velti fyrir mér hvort hann geti upplýst mig og þingheim um það hvort eitt tiltekið atriði hafi verið skoðað ofan í kjölinn af hálfu fjárlaganefndar og það er hversu langt heimildir löggjafans ganga til að veita ríkisábyrgð eða samþykkja ríkisábyrgð án þess að þeim sé markaður einhver rammi í tíma og upphæð. Þetta er athugasemd sem hefur komið fram ítrekað í umræðunni. Ein meginbreytingin á efnahagslegu fyrirvörunum frá því í sumar gengur út á það að verið er að taka tímamörkin í burtu og í rauninni að minnka þann öryggisventil sem var fyrir hendi um efnahagslegu fyrirvarana að því marki hvað Íslendingar eiga að greiða á ári eftir tilteknum forsendum. Það er alla vega verið að gera það óskýrara og taka í rauninni burt ákveðin mörk á því hversu mikið Íslendingar þurfa að borga af þessum lánum. Það er sem sagt bæði búið að þynna út eða eyða tímamörkum af ríkisábyrgðinni og hins vegar mörkum varðandi þá upphæð sem greiða ber.

Ég velti fyrir mér hvort fjárlaganefnd hafi farið ofan í þetta út frá þeirri forsendu, sem ég hef nefnt hér oft í umræðum og Sigurður Líndal prófessor hefur fjallað um í blaðagrein, að þetta standist stjórnarskrá. Ég velti fyrir mér að hvaða marki fjárlaganefnd ræddi þetta mál og kannaði það og um leið hvort fjárlaganefnd kannaði það með hvaða hætti ríkisábyrgðir hafa verið samþykktar hingað til, (Forseti hringir.) vegna þess að ég hef á tilfinningunni að það sé alveg fordæmalaust að ríkisábyrgð sé veitt eins skilyrðislaust og hér er um að ræða.