138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:57]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var eitt af þeim atriðum sem ég kom inn á í ræðu minni áðan, breytingin sem varð á þessu máli. Þegar það kom fyrst inn í þingið var þetta, eins og hv. þingmaður benti réttilega á, allt saman útúrsnúningur og innihaldslaus rök og fjölfræðingurinn skrifaði alveg látlaust, alveg sama hvað var, það var ekki takandi mark á neinu. En það sem gerðist, og þess vegna er ég mjög hryggur yfir því núna að við skyldum ekki halda áfram þeirri samstöðu sem náðist í nefndinni, og ég er margbúinn að segja það í þessum ræðustól að eftir málið kom til meðferðar í fjárlaganefnd í sumar, gerði formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, allt sem í hans valdi stóð til að kalla eftir upplýsingum sem við stjórnarandstæðingar óskuðum eftir. Fyrir það hef ég alltaf verið þakklátur og ég get sagt það einu sinni enn og það var aldrei gerð nein tilraun til að hindra aðgang að neinum gögnum. Ef við báðum um eitthvað á nefndarfundum varð hann strax við því og það kom þá til nefndarinnar í framhaldi af því. Það er ágætt að menn haldi því til haga líka.