138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:59]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Áður en hv. þm. Ásbjörn Óttarsson tók til máls og raunar áður en hv. þm. Birkir Jón Jónsson tók til máls voru umræður og óskir um að hingað kæmu formaður og varaformaður fjárlaganefndar og tækju þátt í umræðunni. Það var tilkynnt að gerðar hefðu verið ráðstafanir til að láta þá vita að þeirra væri óskað í þessari umræðu. Ég ætlaði að vita hvort forseti gæti upplýst um hvort þær ráðstafanir hefðu skilað einhverjum árangri.

Eins vildi ég spyrja hvernig staðan er á ráðherrabekkjunum, vegna þess að ég minnist þess bara síðast í morgun að ráðherrar lögðu mikla áherslu á að þetta mál yrði tekið til umræðu og man ég sérstaklega eftir hæstv. samgönguráðherra sem var mjög ákafur um að þessi umræða færi fram, eins hæstv. iðnaðarráðherra sem beitti sér mjög hér, reyndar ekki úr ræðustól heldur úr sæti sínu. (Forseti hringir.)

Ég vildi spyrja hverju líður. Er þessum hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum ekki kunnugt um að hér fer fram fundur og umræða um eitt mikilvægasta mál lýðveldisins?