138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:02]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. forseta þessar upplýsingar en við skautum samt sem áður ekki fram hjá þeirri staðreynd að meiri hluti fjárlaganefndar lagði þetta mál fram til 2. umr. Formaður þeirrar nefndar er hv. þm. Guðbjartur Hannesson og varaformaður hv. þm. Björn Valur Gíslason. Þeir eru ekki viðstaddir umræðuna. Með því er verið að brjóta gegn áratugalangri hefð sem hefur myndast hér á þingi um að forsvarsmenn nefnda séu til viðræðu í mikilvægustu umræðunni, sem er 2. umræða, sú sem við ræðum hér. Það er því spurning hvort þetta sé til marks um breytt og ný vinnubrögð hjá nýjum meiri hluta hér á þingi að afnema þessa hefð (Forseti hringir.) eins og svo margar aðrar í þessum þingsal. Mér er spurn, frú forseti.