138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:10]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Ég kem hér í mína aðra ræðu og er því vonandi ekki farinn að stunda málþóf þó að ég nýti mér þann rétt sem ég hef til þess að tala hér samkvæmt þingsköpum.

Ég vil í upphafi máls míns nefna að í frétt sem var í ríkissjónvarpinu í fyrradag, að ég held, var vitnað í seðlabankastjóra, þar sem hann segir að hluti af norrænu lánunum verði væntanlega afgreiddur fyrir jól. Það er í samræmi við yfirlýsingar, sérstaklega frá Norðmönnum, um að allt frá 28. október hafi þau lán verið til reiðu fyrir Ísland. Þannig að öll sú hræðsla sem hér hefur verið borin á borð fyrir þing og þjóð um að við fáum ekki þessi lán ef þetta ólukkans Icesave-frumvarp verður ekki samþykkt er ósönn, hún er röng. (Gripið fram í: Frostavetur.)

Frostavetur, forsætisráðherra spáði hér frostavetri. Oft er talað um að við stjórnarandstöðuþingmenn séum heldur svartsýnir en ég held að það sé alveg hámark svartsýninnar að hér verði frostavetur á ný, ekki síst í ljósi þess að yfirlýsingar hafa komið, eins og ég sagði, frá Norðmönnum, Norðurlöndunum og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um þessi lán sem allt hefur virst snúast um, alla vega undir það síðasta þegar við vorum búin að ýta frá okkur Evrópusambandinu og hinu og þessu. Ljóst er að þau standa okkur til boða og eru óháð Icesave. En það vantar öll rök frá stjórnarliðum um hvers vegna við þurfum að fara með þetta ólukkans mál í gegn, mál sem er miklu verra í dag en það var í ágúst, sem mér þótti þó slæmt á þeim tíma.

Ég held og veit að við höfum sannanir fyrir því í leynigögnunum svokölluðu sem liggja hér einhvers staðar í möppu, við höfum fengið fréttir af því erlendis frá, nú bara nýlega frá Evrópuþinginu, og við höfum heyrt það í ræðum manna hér að Evrópusambandið er að hóta okkur og kúga. Það hótar ríkisstjórnarflokkunum, Samfylkingu og Vinstri grænum, því að ef ekki verður gengið að þessum afarkostum sé umsóknin um inngöngu í Evrópusambandið eða aðildarviðræður í húfi. Af fenginni reynslu eru þessir stjórnarflokkar tilbúnir að fórna ýmsu til að halda sig á þeim vegi.

Frú forseti. Ég veit að hæstv. fjármálaráðherra er hér að hlusta einhvers staðar í nágrenninu og þakka honum fyrir það. Mér þætti hins vegar vænt um að vita hvort hæstv. forsætisráðherra er hér einhvers staðar, hún hefur ekki sést í þingsalnum alllengi, en ég vona að hún sé að hlusta, þó að ég hafi svo sem enga tryggingu fyrir því. Frú forseti, ég óska líka eftir því að forsvarsmenn og þeir sem leggja fram þetta mál verði kallaðir hér í hús. (Forseti hringir.) Það er búið að kalla eftir formanni fjárlaganefndar hér síðan um hádegi, frú forseti.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill taka það fram eins og hefur margoft verið gert í dag undir þessari umræðu, að bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra eru hér í húsi. Skilaboðum hefur verið komið til formanns og varaformanns fjárlaganefndar um það að þessi umræða fari nú fram. Enn fremur vill forseti taka það fram sem nefnt var fyrr í umræðunni, að samkvæmt viðveruskrá eru 15 stjórnarliðar í húsi að fylgjast með þessari umræðu og 13 stjórnarandstæðingar.)

Frú forseti. Ég þakka upplýsingarnar sem tóku eina mínútu af ræðutíma mínum en þökk fyrir.

(Forseti (SVÓ): Þingmaðurinn mun fá þá mínútu.)

Ég hef áhyggjur af því hversu illa formanni fjárlaganefndar gengur að komast hingað en auglýst hefur verið eftir honum síðan klukkan eitt, held ég.

Varðandi þau bréfaskipti sem hér hafa verið nefnd þá finnst mér ekki mikil reisn yfir þeim bréfum sem hafa farið frá hæstv. forsætisráðherra til Breta og Hollendinga. Svar forsætisráðherra Breta, Gordons Browns, er alveg með eindæmum en um leið mjög lýsandi fyrir þann samning sem hér á að gera. Forsætisráðherra Breta, forsætisráðherra þeirra sem ganga hvað harðast fram í að kúga íslenska þjóð, segir að þetta sé í lagi af því að hann viti að samningurinn sé lagalega bindandi, þetta sé bundið í lög, hann hafi ekki áhyggjur af þessu og nú sé allur samningurinn kominn í lagalegan pakka þannig að nú þurfi engar áhyggjur að hafa. Af hverju það? Vegna þess að ráðherrann og ráðgjafar hans átta sig vitanlega á því að um þennan samning gilda bresk lög. Eins og komið hefur fram á fyrri stigum þessa máls þá — þó að ég hafi ekki mikið vit á lögum þá er búið að útskýra þetta fyrir mér — eru þau lög sem gilda svokölluð Common Law, sem eru presenteruð eftir orðanna hljóðan, sem þýðir að nákvæmlega það sem stendur í samningnum er það sem verður haft til hliðsjónar fari eitthvað af honum fyrir dóm. Ég er ekki hissa á því að breski forsætisráðherrann skuli vera býsna öruggur með sig þegar hann hefur komið þessu fyrir með þessum hætti en hins vegar heyrist hvorki hósti né stuna frá íslenskum stjórnvöldum varðandi þetta mál.

Annað atriði sem þarf að svara og ég vona að verði svarað er varðandi stjórnarskrána. Ég óskaði eftir því fyrr við þessa umræðu að gert yrði hlé á henni og fjárlaganefnd kæmi saman til að kalla til sín sérfræðinga varðandi stjórnarskrána. Meiri hlutinn ákvað hins vegar að halda áfram með málið og svara því ekki hvort það verði gert, sem ég vona svo sannarlega að verði. Annað er, frú forseti, að nú hefur stjórnarandstaðan ítrekað boðið að hér verði tekin á dagskrá mjög brýn mál, þ.e. fjáraukalög, skattamál og ýmislegt annað sem ríkisstjórnin verður að klára fyrir jól eða alla vega fyrir áramótin, en það hefur verið ákvörðun ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að halda áfram með Icesave-málið, láta þessi mikilvægu mál bíða þó að það liggi fyrir, frú forseti, að ekki er efnahagsleg pressa á okkur varðandi Icesave-málið heldur eingöngu sú pólitíska pressa sem fylgir umsókninni um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Já.) Rétt. Þannig að það er sorglegt að sjá hvernig farið er með þetta stóra mál.

Það er mjög athyglisvert að ekki skuli vera vilji fyrir því hjá ríkisstjórninni og meiri hlutanum að taka þessi mál á dagskrá því að stjórnarandstaðan bauð að hafa umræðuna um þessi mál takmarkaða þannig að þau kæmust til nefndar, þannig að þessi brýnu mál kæmust í gegnum 1. umr. og færu til nefndanna þar sem þarf að vinna þau. Nú mun þessi dagur líða og örugglega morgundagurinn og guð má vita hve margir dagar þangað til þessi mál komast til nefnda. Það er algerlega val stjórnarinnar að hafa þetta svona. Það er á þeirra ábyrgð ef einhver sprengur verður og enn einu sinni gerð mistök við lagasetningu hjá þessari ríkisstjórn.

Nú er það svo, frú forseti, að ég áttaði mig á því áðan að líklega er önnur ástæða fyrir því að menn vilja halda þessu máli á fullu spani, ef það má orða það svo, í stað þess að taka fyrir önnur mál. Það er að nú hafa ríkisstjórnin og stjórnarflokkarnir, Vinstri græn og Samfylking, áttað sig á því að farin er af stað mikil undirskriftasöfnun gegn þessu máli. Fleiri hundruð manns skrá sig á hverjum degi núna, ég veit svo sem ekki nýjustu tölur en síðast þegar ég gáði voru undirskriftirnar að nálgast 10 þúsund, ef ég man rétt, þannig að það er óneitanlega einhver pressa og taugatitringur vegna þess. Því er ekki óvitlaust að ætla að þetta skelfi ríkisstjórnina og hún vilji því drífa þetta af og láta önnur brýn mál bíða, sem er í raun alveg forkastanlegt.

Ég vil leyfa mér, frú forseti, að hvetja þá sem hafa áhyggjur af þessu að mótmæla þessari aðferðafræði. Ég veit, frú forseti, að búið er að boða til mótmælagöngu og mótmæla á þingfundatíma á morgun þannig að ég hef smááhyggjur af því að ef við verðum hér á morgun þá verði menn uppteknir við hluti sem þjóðin er ósátt við og hún muni sýna það fyrir utan.

Frú forseti. Samtökin sem ég nefndi áðan, Indefence, hafa ásamt fjölda annarra Íslendinga háð mikla réttlætisbaráttu í þessu máli og eytt miklum tíma og orku í að reyna að sýna fram á hversu hrikalegt mál þetta er. Okkar færustu lögmenn og aðrir hafa sett álit sín fram og varað við þessu en enn sem komið er hefur ekkert verið hlustað á það. Fram hefur komið, m.a. frá lögmönnunum Stefáni Má Stefánssyni og Lárusi L. Blöndal, að þeir fyrirvarar sem mestu skipta til að takmarka ríkisábyrgðina og voru þó inni í hinu gallaða og laskaða frumvarpi sem var samþykkt í ágúst eru nánast að engu orðnir út frá því lögfræðilega sjónarhorni sem þeir nota. Einnig hefur komið fram hjá öðrum aðilum að efnahagslegu fyrirvararnir eru mjög útþynntir og munu líklega ekki halda.

Mig langar, frú forseti, með leyfi forseta, að vitna í niðurstöðu þeirra Stefáns Más og Lárusar Blöndals. Þar segir:

„Niðurstaða þessa samanburðar er afdráttarlaus. Þeir fyrirvarar sem mestu skiptu til að takmarka ríkisábyrgðina vegna Icesave-samninganna eru nánast að engu orðnir út frá lögfræðilegu sjónarhorni. Skuldbindingar íslenska ríkisins eru á ný orðnar óljósar og ófyrirsjáanlegar bæði hvað varðar fjárhæðir og tímalengd.“ — Síðan stendur, frú forseti: „Hins vegar er ljóst að fyrirvararnir sem settir voru fyrir ríkisábyrgðinni í haust geta ekki verið réttlæting fyrir því að samþykkja ríkisábyrgðina samkvæmt fyrirliggjandi frumvarpi.“

Það er því mat þessara lögmanna sem eru í hópi okkar færustu lögmanna að það stendur varla steinn yfir steini í því sem eftir er, ef ég túlka niðurstöðu þeirra rétt.

Í samanburði sem Indefence-hópurinn lagði fram og sendi þingmönnum er farið yfir þær breytingar sem gerðar eru. Það verður að segjast eins og er að það er mikið áhyggjuefni ef það er rétt sem haldið hefur verið fram hér að fjárlaganefnd hafi fjallað til málamynda um þær athugasemdir sem komu fram milli umræðna og í raun ekkert gert með þær. Má þar nefna efnahagslega fyrirvara og athugasemdir, t.d. frá Indefence, sem ég nefndi hér áðan.

Það er líka, frú forseti, tilefni til þess að velta því fyrir sér í þessu sambandi hvernig þingmenn og jafnvel ráðherrar hafa talað af léttúð um þá ábyrgð sem hvílir á Alþingi. Hér var samþykkt ríkisábyrgð, ég stóð nú ekki að því. Hér erum við aftur að tala um að veita ríkisábyrgð á miklu verri samning sem mun að mínu viti reynast okkur gríðarlega dýr, en á fundi í Alþingi 22. október héldu formaður fjárlaganefndar, Guðbjartur Hannesson, og hæstv. utanríkisráðherra því fram að alltaf sé hægt að taka ríkisábyrgðina úr gildi. Frú forseti, þetta eru sömu aðilarnir og standa hér og tala sig hása um alþjóðasamfélagið, að við megum ekki verða útskúfuð úr alþjóðasamfélaginu. Þess vegna verðum við að borga þessa skuld sem einhverjir glæframenn stofnuðu til og varð til í tíð Samfylkingar í ríkisstjórn, þegar Samfylkingin var í viðskiptaráðuneytinu, þegar hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson var viðskiptaráðherra, þegar samfylkingarmaður var formaður Fjármálaeftirlitsins og varaformaður stjórnar Seðlabankans. Icesave-reikningarnir blésu út á meðan Samfylkingin réð þessum hlutum. Svo standa sumir þingmenn og ráðherrar þessa ágæta flokks hér og segja að við getum alltaf tekið ríkisábyrgðina úr gildi. Hvað yrði þá um hið stórkostlega alþjóðasamfélag sem er að hóta og lemja á hinu litla Íslandi? Hvað verður þá um alþjóðasamfélagið? Hvað gera þeir þá ef við kippum úr sambandi svona hlutum sem við erum búnir að samþykkja? Frú forseti, að mínu viti er miklu betra að sleppa því að gera þennan samning eins og hann er og samþykkja ekki ríkisábyrgð á hann eins og hann lítur út því að það er alger óhæfa að fara með málið í þennan farveg, opinn tékka til framtíðar þar sem við höfum ekki hugmynd um hver endanleg niðurstaða eða endanleg greiðsla verður.

Það verður líka, frú forseti, að nefna hér að það er mjög sérkennilegt að þegar aðilar leyfa sér að gagnrýna annaðhvort ríkisstjórnina eða samning hennar opinberlega þá er hlaupið upp til handa og fóta og jafnvel gert lítið úr þeim og þeir sakaðir um að hafa ekki vit á því sem þeir eru að gera. Fyrir nokkrum dögum var vitnað í greinargerð sem Daniel Gros, sem situr í bankastjórn Seðlabankans og fer fyrir rannsóknastofnun í Evrópuviðskiptum, ef ég man rétt, ég man ekki alveg hvað það heitir en hann er talinn vera framarlega í flokki á sínu sviði. Hann skrifaði grein og talaði um jafnræðisreglu samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þá rauk einn samningsmanna Icesave-samningsins til og reyndi að gera lítið úr því sem þessi ágæti maður nefndi. Menn gera því meira að segja skóna að einhver fremsti maður, a.m.k. Evrópu, í peningamálum kunni ekki að reikna vexti. Einn af forustumönnum Icesave-samkomulagsins sagði þetta. Síðan er vitnað í jafnræðisreglu sem sá ágæti maður segir einnig að sé í raun rugl en í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er víða talað um jafnræði, m.a. í inngangi, þannig að ég held að Icesave-samningsforstjórinn ætti að lesa þetta betur.

Það er í raun athyglisvert sem kemur fram í viðtali við Eirík Bergmann Einarsson, frú forseti, í Morgunblaðinu, held ég að það hafi verið. Með leyfi forseta segir þessi sérfræðingur í Evrópumálum, sem vinnur á Bifröst við Evrópurannsóknir, ef ég man rétt:

„Málið er í eðli sínu pólitískt og verður ekki leyst nema á hinum pólitíska vettvangi.“

Þetta hefur ekki verið praktíserað með réttum hætti af stjórnvöldum. Hér er þetta mál rekið sem einkamál viðskiptalegs eðlis. Í staðinn fyrir að reyna að reka það pólitískt og leysa með þeim hætti. Síðan segir:

„Eiríkur segir að íslensk stjórnvöld virðist ekki skilja þetta, hvorki núverandi né hin fyrri. „Þau hafa gloprað út úr höndunum hverju tækifærinu á fætur öðru til að ná hagsmunum Íslendinga betur fram.““

Þetta er býsna harkalegt en þetta er hins vegar rétt að mínu viti. Þessi ágæti maður segir í öðru viðtali, með leyfi forseta:

„Satt að segja hefur mér fundist íslenskir stjórnmálamenn hafa frekar haft áhuga á því að slá pólitískar keilur í þessu máli heima fyrir heldur en að gæta hagsmuna Íslendinga á erlendum vettvangi.“

Hvað segir þetta okkur þegar þeir sem hvað gleggst þekkja til Evrópumálanna og þess hvernig best sé að halda á málum gagnvart Evrópusambandinu eða öðru slíku setja svona fram? Það er mín skoðun að fleiri og fleiri séu að átta sig á því að pólitísk kúgun er á bak við þetta mál af hálfu Evrópusambandsins vegna þess að Icesave, Bretland, Holland og Evrópusambandið hafa verið óaðskiljanleg frá fyrstu tíð. Þetta hefur alltaf fylgst að. Þetta byrjaði þannig fyrir rúmu ári síðan að ekki mátti fella evrópska innstæðutryggingarkerfið. Síðan erum við búin að gjalda þess að vera inni í því batteríi með þessum aðilum og þá er ég ekki að kveða upp neina dóma yfir samningnum um Evrópska efnahagssvæðið heldur eingöngu í þessu tiltekna atriði.

Frú forseti. Tíminn er á enda en ég vona að ég hafi komið því til skila sem ég ætlaði mér varðandi þennan samning.